Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

 • 130

  MWe

  Uppsett afl

 • 830

  GWh

  Ársframleiðsla

 • 28

  Fjöldi háhitahola

 • 55

  km

  Lengd háhitahola

Reykjanesvirkjun

Framleiðsla orku frá Reykjanesvirkjun hófst í maí 2006. Vél 1 fór í rekstur um miðjan maí og vél 2 í lok maí. Orkuverið er hannað með tilliti til þess að því sé almennt stjórnað með fjargæslu frá stjórnstöð í Svartsengi.

Reykjanesvirkjun er eingöngu raforkuver sem samanstendur af 2 x 50 MW tvístreymishverflum með sjókældum eimsvölum sem var nýjung á Íslandi og nota samtals allt að 2 x 2000 l/s, aðskilin dælukerfi (sem er álíka magn og meðalrennsli Elliðaánna).

Raforkuframleiðsla HS Orku á sér nokkuð langa sögu en hún hófst í apríl 1978 þegar gangsettur var eins MW hverfill til eigin nota í Svartsengi og skömmu síðar var annar sömu stærðar gangsettur. Næsti áfangi var gangsetning sex MW hverfils í desember 1980, þar á eftir komu þrír Ormat hverflar árið 1989 samtals 3,6 MW og 1993 var bætt við fjórum Ormat hverflum 4,8 MW alls. Árið 1999 var bætt við 30 MW hverfli í orkuveri 5. þannig að það tók 21 ár að ná 45 MW rafmagnsframleiðslu í Svartsengi. Næsti áfangi í Svartsengi var gangsettur 2008 en það er 30 MW raforkuver sem gengur undir heitinu orkuver 6.

 

Aðdragandi

Aðdragandi að arðbærri og raunverulegri nýtingu jarðhitans á Reykjanesi er orðinn mjög langur. Fyrsta rannsóknarholan var boruð árið 1956 og á árunum 1968 til 1969 voru boraðar sjö rannsóknarholur til viðbótar. Hola 8 var þeirra umfangsmest og eina sem var nýtt en hún varð 1.754 metra djúp og var aðal vinnsluhola svæðisins um árabil með heildarupptekt upp á tæplega 21 milljón tonna, en vegna skemmda var steypt í hana árið 1993.

Það var síðan 31. desember 1976 að sveitarfélögin á svæðinu, sem þá voru sjö, kaupa 63 til 70 hektara land af landeigendum Kalmannstjarnar og Junkaragerðis ásamt öllum jarðhitaréttindum jarðanna innan 10 ohm viðnámslínu. Með samkomulagi sem undirritað var 22. nóvember 1985 var þetta svæði síðan skilgreint nánar og lína dregin frá Sýrfelli til sjávar og jarðhitaréttindin takmörkuð við svæðið sunnan þessarar línu. Þann annan. janúar 1979 leigja sveitarfélögin síðan ”Undirbúningsfélagi Saltverksmiðju á Reykjanesi hf” landið undir sjóefnaverksmiðju ásamt tilheyrandi jarðgufu og jarðefnum. Sjóefnavinnslan hf tók síðan við rekstri á svæðinu og í upphafi árs 1983 var hola 9 boruð en hún er 1.445 metra djúp. Hún skemmdist við hreinsun og hefur henni verið lokað en upptekt úr henni nálgast nú 30 milljón tonn. Svæðið var á þeim tíma ekki tengt landskerfi rafmagns og því setti Sjóefnavinnslan hf upp 500 kW Terry hverfil til eigin nota um áramótin 1983 / 1984 en rekstri hans lauk með gangsetningu Reykjanesvirkjunar. Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er um margt sérstakt og væntanlega er virkjunin erfiðasta verkefnið sem íslenskur jarðhitaiðnaður hefur tekist á við. Ástæðan er sú að á Reykjanesi hefur vökvinn fulla seltu sjávar (2/3 seltu í Svartsengi og mun minna á Hengilssvæðinu) og hitastigið er 300° til 320° C (243° í Svartsengi). Þetta háa hitastig veldur því að mun meira er um útleyst efni og því eru útfellingar aðal vandamálið. Hverflarnir eru því reknir við um það bil 18 bara þrýsting til að verjast útfellingum en til samanburðar er 30 MW vélin í orkuveri 5 í Svartsengi rekin á 6 börum.

Fyrstu framkvæmdir

Fyrstu framkvæmdir við Reykjanesvirkjun sem slíkrar má rekja allt aftur til ársins 1997 þegar vinna við umhverfismat jarðhitavinnslu hófst og á árinu 1998 hófst borun fyrstu tilraunaholunnar á svæðinu, holu Reykjanesvirkjun inni (2)10 og lauk borun hennar í febrúar 1999. Í upphafi var aðeins um könnun á möguleikum nýtingar jarðhitans almennt og var þá frekar verið að huga að gufuöflun fyrir magnesíumverksmiðju frekar en til raforkuframleiðslu. Um svipað leyti og það var að verða ljóst að af byggingu magnesíumverksmiðju yrði ekki var haft samband við HS Orku um möguleika þess að fyrirtækið kæmi að orkuöflun fyrir stækkun Norðuráls í Hvalfirði. Var í fyrstu rætt um að Landsvirkjun yrði með um 80 MW og HS Orka og OR síðan með um 40 MW hvort. Þegar Landsvirkjun datt úr myndinni vegna vandræða við Reykjanesvirkjun inni (3)Norðlingaöldu varð að stokka upp spilin og ákváðu HS Orka og OR þá að annast orkuöflunina saman og vera með tæp 80 MW hvort fyrirtæki. Segja má, að með undirritun viljayfirlýsingar þann 31. október 2003 milli HS Orku, OR og Norðuráls um orkuöflun og orkusölu til Norðuráls hafi formlega verið tekin ákvörðun um Reykjanesvirkjun.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni átti HS Orka að hefja fulla afhendingu í maí 2006 sem var mjög metnaðarfullt markmið og ljóst að ekki mátti mikið út af bera. Laugardaginn 17. apríl 2004 var undirritaður í Eldborg í Svartsengi formlegur samningur milli Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur annarsvegar og Norðuráls hinsvegar um kaup Norðuráls á 153 MW og 1.340 GWh árlega og miðað við að raforkusalan skiptist jafnt milli HS og OR.

Framkvæmdir við virkjunina hófust formlega með fyrstu ”skóflustungu” eða hellutöku þann 21. júlí 2004 og 22 mánuðum síðar hófst full afhending raforku frá Reykjanesvirkjun.

Reykjanes 4

Reykjanes 4

Framleiðsla orku frá Reykjanesvirkjun hófst í maí 2006 eftir prufukeyrslu og ýmsar prófanir. Vél eitt fór í rekstur um miðjan maí og vél tvö í lok maí. Virkjunin samanstendur af tveim háþrýstingsvélum með uppsettafl uppá samtals 100 MWe. Nú stendur HS Orka í framkvæmdum við að bæta nýtingu virkjunarinnar með því að bæta við nýrri lágþrýstings vél inná kerfið. Með þessari aðferð er gufa unnin úr jarðsjónum frá vinnsluholunum sem nýtist ekki í háþrýstingsvélunum. Þessi gufa er nýtt með lágþrýstingsvél sem mun skila um 22-30 MWe. 

Framkvæmdir hófust árið 2020 og var stækkunin tekin í notkun í desember 2022.