Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Upprunaábyrgðir

Hvað eru upprunaábyrgðir?
Upprunaábyrgðir eiga stoð í kerfi Evrópusambandsins (2009/28/EC) en því er ætlað að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og umbuna fyrirtækjum sem framleiða raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hugmyndin með kerfinu er sú að tryggja rekjanleika endurnýjanlegrar raforku og styðja við frekari uppbyggingu á því sem stundum er kölluð græn orkuframleiðsla. Því eru upprunaábyrgðir oft nefndar græn skírteini í daglegu tali. Með þessu kerfi varð sú breyting á að þeir sem framleiða orku með endurnýjanlegum orkugjöfum framleiða raforku áfram, en auk þess stendur þeim til boða að kalla eftir upprunaábyrgðum sem samsvara raforkuframleiðslunni. Upprunaábyrgðirnar eru sjálfstæð vara, ótengd framleiðslunni. 

Til hvers að kaupa upprunaábyrgðir?
Mörg fyrirtæki, sérstaklega í framleiðslu, vilja vera umhverfislega ábyrg fyrir losun á CO2 sem starfsemi þeirra veldur. Eitt af því sem þau geta gert er að kaupa upprunaábyrgðir og tryggja þannig að raforkunotkun þeirra sé 100% endurnýjanleg. Að auki er þannig stuðlað að frekari uppbyggingu nýrra virkjana endurnýjanlegrar orku.

Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að einstaklingar nýti sér kerfið vilji þeir ná sömu markmiðum.

Hverjir eru það helst sem vilja upprunaábyrgðir?
Á alþjóðavísu eru það helst stórfyrirtæki sem sækjast eftir því að halda gott umhverfisbókhald því það gerir þau að eftirsóknarverðari fjárfestingarkostum.

Hvernig fara viðskipti með upprunaábyrgðir fram?
Upprunaábyrgð er gefin út þegar raforkuframleiðandi kallar eftir því og gildir hún í 12 mánuði frá framleiðslutíma. Þegar endanotandi biður um að hans notkun sé vottuð afskráir raforkuframleiðandinn upprunaábyrgðir í sama magni og notandi hefur notað, en bókhald fyrir þessu miðast við undangengið almanaksár. Í framhaldi af afskráningu tilkynnir framleiðandinn eftirlitsaðila (Orkustofnun) um að viðkomandi viðskiptavinur sé nú með vottaða raforkunotkun og Orkustofnun sannreynir afskráningu með gögnum frá Landsneti.

Viðskipti með upprunaábyrgðir geta átt sér stað milli aðila þannig að miðlarar og framleiðendur geta keypt og selt þær sín á milli, áður en þær eru endanlega nýttar til vottunar á raforkunotkun innan kerfis AIB (https://www.aib-net.org/) sem Ísland er aðili að. Það er því hægt að nota íslenskar upprunaábyrgðir til að votta raforkunotkun erlendis og öfugt.

Selur HS Orka upprunaábyrgðir?
Já. HS Orka selur upprunaábyrgðir, einkum frá eigin framleiðslu, en þó aðeins ábyrgðir sem ekki eru nýttar í þágu viðskiptavina sem hafa óskað eftir að fá sína raforkunotkun vottaða.

Hvað gerist ef raforkunotandi kaupir ekki upprunaábyrgðir?
Þeir raforkunotendur sem ekki fá afskrifaðar ábyrgðir fyrir raforkunotkun sinni fá skráða í reikninga sína nánast sömu almennu samsetningu raforku og er til staðar hjá hinum 28 aðildarlöndunum innan AIB. Sú samsetning hefur innihaldið m.a. kjarnorku og jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa.

Hver sér um utanumhald á upprunaábyrgðum fyrir Ísland?
Landsnet sér um útgáfu og afskráningu upprunaábyrgða fyrir Ísland ásamt inn- og útflutningi þeirra. Orkustofnun heldur utan um notkun til að tryggja að þeir einstaklingar og þau fyrirtæki sem hafa tryggt sér upprunaábyrgðir geti staðfest að þeir/þau séu að nota vottaða endurnýjanlega raforku.

Eru kerfi á borð við upprunaábyrgðir skref í rétta átt ?
Við teljum svo vera. Vottun endurnýjanlegrar orkunotkunar er aðeins möguleg með upprunaábyrgðum og endurnýjanleg orkuframleiðsla skiptir máli á alþjóðavísu. Með upprunavottun raforku greiða notendur vissulega viðbótarkostnað en greiðslan er valkvæð. Á sama tíma verða ákjósanlegir virkjunarkostir sífellt dýrari þar sem hagfelldustu virkjunarkostirnir hafa yfirleitt þegar verið nýttir. Andvirði upprunaábyrgðanna nýtist til frekari uppbyggingar á sviði endurnýjanlegrar orkunýtingar.

Aðildarríkjum innan AIB hefur fjölgað á undanförnum árum og ekkert ríki hefur gengið úr AIB. Utan Evrópu hefur fjölgað enn hraðar í hópi ríkja sem notast við I-REC (International Renewable Energy Certificate) vottun á endurnýjanlegri raforku.

Ábyrgðakerfi um grænt vetni og grænt jarðgas hefur einnig verið sett á laggirnar. Það er því ljóst að upprunaábyrgðakerfin eru að eflast og geta þau hæglega stutt við orkuskipti til framtíðar.