Yfirstjórn HS Orku

Stjórnarformaður
Adrian Pike
Adrian Pike tók sæti í stjórn félagsins í júlí 2020. Hann er rafmagnsverkfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt, búsettur í Bretlandi og býr að ríflega 30 ára reynslu á sviði orku- og veitumála. Adrian hóf feril sinn sem nemi í rafvirkjun hjá Scottish and Southern Energy og þar vann hann sig upp í framkvæmdastjórn félagsins. Árið 2010 stofnaði hann félagið Anesco Ltd. í samstarfi við fleiri aðila og gegndi starfi forstjóra félagsins til ársins 2016. Adrian er meðal stofnenda InstaVolt Ltd., sem á og rekur öflugasta hraðhleðslunet Bretlands fyrir rafbíla, og er hann stjórnarformaður félagsins. Hann er einnig stjórnarformaður Enviromena.

Varaformaður
Bjarni Þórður Bjarnason
Bjarni Þórður Bjarnason hefur setið í stjórn félagsins frá því í júní 2019. Hann er vélaverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Southern Methodist University í Texas í Bandaríkjunum. Bjarni Þórður er einn stofnenda Arctica Finance og starfar nú sem aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins. Hann er jafnframt stjórnarmaður í Arctica eignarhaldsfélagi, Árvakri og Þórsmörk. Bjarni Þórður var forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans frá 2003 til 2009. Hin síðari ár hefur hann veitt mörgum íslenskum og erlendum fjárfestum ráðgjöf í rekstri, kaupum og sölu á fyrirtækjum og hlutafjársöfnun.

Meðstjórnandi
Heike Bergmann
Heike Bergmann tók sæti í stjórn félagsins í maí 2019. Heike er með meistaragráðu í viðskipta- og rafmagnsverkfræði frá Technische Universität Darmstadt. Hún er búsett í Þýskalandi og á að baki langan feril í sölu og markaðssetningu á sviði orku- og veitumála. Árið 2016 tók hún við stöðu aðstoðarforstjóra hjá söludeild fyrir Afríku hjá Voith Hydro Holding GmbH & Co en hafði fram að því gegnt stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins frá 2012. Hún er varaformaður stjórnar Sub-Sahara Africa Initiative of the German Industry og á sæti í ráðgjafaráði fyrirtækja í einkageiranum hjá GIZ.

Meðstjórnandi
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir tók sæti í stjórn félagsins í apríl 2023. Margrét er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði og M.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands, auk M.Sc. í endurnýjanlegum orkukerfum og orkustefnum frá School of Renewable Energy Science. Margrét er rekstrarstjóri Transition Labs, sem leitar uppi framúrskarandi erlend loftslagsverkefni og aðstoðar við að koma þeim á legg hér á landi. Áður var Margrét fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures og aðstoðarforstjóri Carbon Recycling International ásamt því að veita rágjöf í viðskiptaþróun og endurskipulagningu fyrirtækja hjá Landsbankanum. Margrét hefur setið í ýmsum stjórnum, jafnt í einkageiranum sem hjá hinu opinbera.
-
86
Starfsmannafjöldi
-
68
Fjöldi karla
-
18
Fjöldi kvenna
-
3
Starfstöðvar


Forstjóri
Tómas Már Sigurðsson
Tómas Már Sigurðsson er umhverfisverkfræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í skipulagsverkfræði frá Cornell University í Bandaríkjunum. Hann tók við starfi forstjóra HS Orku í ársbyrjun 2020 eftir að hafa starfað um sextán ára skeið hjá Alcoa, fyrst sem forstjóri Alcoa á Íslandi, svo sem forstjóri í Evrópu og Miðausturlöndum og loks aðstoðarforstjóri Alcoa á heimsvísu. Tómas Már hefur setið í stjórn ýmissa fyrirtækja og samtaka, m.a. sem formaður Viðskiptaráðs Íslands 2009-2012, stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins 2005-2011 og stjórnarmaður í samtökum evrópskra álframleiðenda.

Framkvæmdastjóri framleiðslusviðs
Kristinn Harðarsson
Kristinn Harðarson er iðnaðartæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur (DTU) ásamt meistaragráðu í viðskiptafræði (MBA) frá Háskóla Íslands. Hann kom til starfa sem framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku í ársbyrjun 2021 en starfaði áður við stjórnun virkjanareksturs hjá ON Power. Þar áður starfaði hann í fjórtán ár hjá Alcoa Fjarðaráli, meðal annars sem framkvæmdastjóri álframleiðslu og framkvæmdastjóri fjárfestinga og framleiðsluþróunar. Einnig tók hann þátt í umbreytingu viðskiptaferla í höfuðstöðvum Alcoa Corporation í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Framkvæmdastjóri stefnumótunar, framfara og Auðlindagarðsins
Jón Ásgeirsson
Jón Ásgeirsson hóf störf hjá HS Orku í mars 2020 sem framkvæmdastjóri stefnumótunar, framfara og Auðlindagarðsins. Áður vann hann lengst af hjá Rio Tinto; fyrst í rúm tíu ár í Straumsvík þar sem hann var m.a. framkvæmdastjóri steypuskála og síðan í önnur tíu ár í París og Montreal. Þar gegndi hann ýmsum stjórnunarstöðum á sviði sölu- og markaðsmála, við innkaupastjórnun og í viðskiptaþróun. Áður en hann gekk til liðs við HS Orku veitti hann alþjóðlegum fyrirtækjum ráðgjöf við umbreytingar. Jón situr í ýmsum stjórnum og er m.a. formaður Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Hann er efnafræðingur frá Háskóla Íslands og iðnaðarverkfræðingur frá Háskólanum í Stuttgart.

Framkvæmdastjóri lögfræðisviðs
Arna Grímsdóttir
Arna Grímsdóttir er með cand.jur gráðu frá Háskóla Íslands og er löggiltur héraðsdómslögmaður. Hún gekk til liðs við HS Orku sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs í janúar 2021. Fram að því gegndi hún í áratug stöðu framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Reita fasteignafélags hf., sem er stærsta fasteignafélag á Íslandi og skráð í Nasdaq OMX Kauphöll Íslands. Hún hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka, meðal annars sem forseti UN Women á Íslandi (2017-2023). Hún var fyrsta konan sem kosin var varaformaður Knattspyrnufélagsins Vals (2013-2015) auk þess sem hún kom að stofnun Félags fyrirtækjalögfræðinga og sat í stjórn félagsins (2016-2020). Einnig var hún stjórnarformaður Akta sjóða hf. (2015-2020).

Framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs
Björk Þórarinsdóttir
Björk Þórarinsdóttir er með cand. oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og löggilt próf í verðbréfaviðskiptum. Hún er framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og gekk til liðs við fyrirtækið árið 2020. Hún starfaði um 16 ára skeið hjá Arion banka og forvera hans, lengst af sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs en samhliða því um tveggja ára skeið sem staðgengill bankastjóra. Hún tók við starfi fjármálastjóra Silfurtúns á Íslandi árið 1998 eftir að hafa gegnt starfi fjármálastjóra hjá Philips Consumer Communications í Frakklandi í tvö ár og þar áður sem sérfræðingur og fjármálastjóri Baxter International í Bandaríkjunum og Þýskalandi í sex ár. Björk sinnti ráðgjafa- og stjórnarstörfum um skeið en hefur setið í stjórn fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum í rúmlega áratug, sem og í stjórn fyrirtækis skráð á aðalmarkað Nasdaq Iceland. Hún hefur átt sæti í ráðgjafaráði SÍA III, framtakssjóði Stefnis frá 2018.

Framkvæmdastjóri sölu og þjónustusviðs
Friðrik Friðriksson
Friðrik Friðriksson er rafmagnstæknifræðingur frá Syddansk Universitet í Danmörku og er framkvæmdastjóri sölu og þjónustusviðs HS Orku. Hann hefur stýrt orkukaupum og orkusölu fyrirtækisins og fyrirrennara þess allt frá 2002 og hefur jafnframt umfangsmikla reynslu af framleiðslustýringu virkjana fyrir raforkumarkað. Hann hefur einnig mikla og víðtæka reynslu af rekstri og uppbyggingu dreifikerfa orkufyrirtækja. Hann hóf störf í íslenska orkugeiranum árið 1992, fyrst sem tæknifræðingur og síðar sem framkvæmdastjóri hjá Bæjarveitum Vestmannaeyja þar til félagið sameinaðist Hitaveitu Suðurnesja árið 2002. Friðrik fór yfir til HS Orku við uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja árið 2008. Hann hefur m.a. setið í stjórnum Netorku, Farice, Samorku, Suðurorku og Vesturverks ásamt ýmsum ráðum innan íslenska orkugeirans.

Framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs
Ásbjörn Blöndal
Ásbjörn Blöndal er rafmagnsverkfræðingur með M.Sc. gráðu í orku- og skipulagsfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku auk þess að vera rafvirki frá Iðnskólanum á Siglufirði. Hann varð framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku árið 2021 en þar áður var hann framkvæmdastjóri verkefnaþróunar HS Orku/Hitaveitu Suðurnesja frá 2007. Hann var framkvæmdastjóri framkvæmda- og tæknisviðs Árborgar 2002-2007 og framkvæmdastjóri Orkuveitu Selfoss 1989-2002. Ásbjörn hefur setið í stjórnum fjölda samtaka og ráða. Hann var m.a. stjórnarformaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja (1994-1996), formaður stýrinefndar um nýtingu vindorku á Íslandi 1999-2006 og frá 2019 hefur hann gegnt formennsku í stjórn Vesturverks. Auk þess hefur hann setið í ýmsum vinnuhópum á vegum Samorku, Árborgarsamfélagsins og íslenskra ráðuneyta.

Framkvæmdastjóri tæknisviðs
Sunna Björg Helgadóttir
Sunna Björg Helgadóttir er með B.Sc. gráðu í efna- og vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún var ráðin framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku í febrúar 2020 en starfið felur í sér ábyrgð á fjárfestingarverkefnum, verkefnastýringu og öryggismálum. Áður en Sunna gekk til liðs við HS Orku starfaði hún hjá Rio Tinto Alcan (Isal) í ýmsum störfum í 14 ár og var m.a. framkvæmdastjóri kerskála. Hún var framkvæmdastjóri tæknisviðs Alvotech frá 2015-2018 og hefur gegnt ýmsum nefndasetum og stjórnarstörfum á ferli sínum.

Mannauðsstjóri
Petra Lind Einarsdóttir
Petra Lind er iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands og stjórnunarmarkþjálfi frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að hafa lokið diplómanámi á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún er mannauðsstjóri HS Orku og á að baki einn lengsta starfsaldurinn innan fyrirtækisins þar sem hún gekk til liðs við Hitaveitu Suðurnesja í janúar 1997 sem starfsmanna- og gæðastjóri. Petra hefur fylgt starfseminni í gegnum miklar breytingar, fyrst við sameiningu veitufyrirtækja á árunum 2001-2005 og síðar við uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja 2008. Hún er virk í félagsstörfum og hefur m.a. starfað í kvennaráði Knattspyrnudeildar Keflavíkur um langt árabil og situr nú í stjórn félagsins.

Viðskiptastjóri og deildarstjóri sjálfbærni
Finnur Sveinsson
Finnur Sveinsson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með M.Sc. gráðu í umhverfisfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð. Hann er viðskiptastjóri og deildarstjóri sjálfbærni og gekk til liðs við HS Orku í árslok 2020. Hann bjó í Svíþjóð í 12 ár og starfaði þá sem ráðgjafi á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Áður en hann hóf störf hjá HS Orku var hann ráðgjafi í viðskiptastjórnun og umhverfismálum hjá Alcoa Fjarðaál og sérfræðingur hjá Landsbankanum í samfélagsábyrgð. Finnur hefur komið að fjölmörgum byggingarverkefnum og verkefnum á sviði sjálfbærni á Íslandi og nefna má að hann byggði fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi. Hann var varaformaður og síðar formaður Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, frá stofnun hennar 2011 til ársins 2017 og frá 2019 hefur hann gegnt formennsku í stjórn vottunarstofunnar Tún.

Upplýsingafulltrúi
Birna Lárusdóttir
Birna Lárusdóttir er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá University of Washington í Bandaríkjunum og M.A. gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún gekk til liðs við HS Orku sem upplýsingafulltrúi í apríl 2023 en hún á að baki langan feril í ritstjórn, fréttamennsku, upplýsingagjöf og þýðingum. Hún var upplýsingafulltrúi Vesturverks á Ísafirði, dótturfyrirtækis HS Orku, árin 2018-2020 og verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða 2015-2017. Birna sat í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar 1998-2010 og hefur gegnt fjölbreyttum nefnda- og stjórnarstörfum fyrir ríki og sveitarfélög. Hún hefur setið í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands frá árinu 2017.