Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Loftslagsstefna

Kjarnastarfsemi HS Orku er að nýta endurnýjanlega orku til framleiðslu á varma og rafmagni. Þegar jarðvarmi er virkjaður á sér stað losun á koltvísýringi. Megináskorunin fyrir HS Orku í loftslagsmálum er að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Á jarðhitasvæðum á sér stað losun á gróðurhúsalofttegundum jafnvel þótt ekki eigi sér stað orkuvinnsla. Vegna óvissu um þá náttúrulegu losun hefur ekki verið tekið tillit til umfangs hennar til frádráttar í losunarbókhaldi fyrirtækisins. HS Orka hefur frumkvæði að rannsóknum, í samvinnu við aðra hagaðila, sem miða að því að skilja betur uppruna og hringrás kolefnis á vinnslusvæði jarðvarma og meta og ákvarða hlutfall náttúrulegrar losunar í heildarlosun fyrirtækisins.

Markmið HS Orku í loftslagsmálum

Kolefnishlutleysi (e. net-zero emissions) fyrir árið 2040
HS Orka hefur sett sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Markmið HS Orku miðast við beina losun frá virkjunum og rekstri þeirra, þ.e.a.s. sú losun sem fellur undir umfang 1 og 2.

Losunarkræfni
HS Orka hefur gefið út markmið um að losunarkræfni (e. emissions intensity) fyrirtækisins verði að hámarki 26 gCO2íg/kWst árið 2030. Markmiðið miðast við 40% lækkun losunarkræfni miðað við árið 2014. Markmiðið miðast við umfang 1 og 2, auk skilgreindra atriða innan umfangs 3 (sjá nánar í kaflanum Umfang 3).

Allar bifreiðar í eigu fyrirtækisins verði knúnar með rafmagni eða rafeldsneyti fyrir árið 2030.

Eigi síðar en árið 2035 verði eingöngu notast við endurnýjanlega orkugjafa á framkvæmdasvæðum HS Orku.

Kolefnishlutleysi

Kolefnishlutleysi starfsemi HS Orku felur í sér að sú losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað í umfangi 1 og 2 samsvari því magni gróðurhúsalofttegunda sem er hagnýtt (CCU), bundið (CCS) eða dælt aftur niður í jarðhitageyminn.

Ljóst er að markmið HS Orku um kolefnishlutleysi árið 2040 mun ekki nást nema fyrir tilstilli verkefna á sviði hagnýtingar (CCU), bindingar (CCS) eða endur-niðurdælingar. Kolefnisjöfnun með kaupum kolefniseininga er ekki hluti af stefnu HS Orku í loftslagsmálum að svo stöddu, en þó er gert ráð fyrir að líta verði til kolefnisjöfnunar fyrir lítinn hluta losunar (<1% af heildarlosun) á borð við keyrslu varaflsstöðva og aðra losun sem illmögulegt er að útiloka með öðrum aðferðum.

Umfang 3

Markmið HS Orku um kolefnishlutleysi nær ekki til umfangs 3. Engu að síður vinnur fyrirtækið markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í aðfangakeðjunni (umfang 3) og ná betur utan um þá losun. Hingað til hefur fyrirtækið talið losun vegna úrgangs, flugferða starfsfólks, auk einstakra liða sem tengjast framkvæmdum, til umfangs 3. Þessir liðir eru taldir með í útreikningum á losunarkræfni, sbr. útgefin markmið.

Til að ná árangri í samdrætti losunar í umfangi 3 setur HS Orka skýr viðmið um loftslagsmál í birgjastefnu sinni og fylgir þeim eftir með markvissri gagnaöflun. Við viljum hraða orkuskiptum hjá framkvæmdaaðilum og öðrum birgjum, sem og viðskiptavinum, í samræmi við stefnu fyrirtækisins í loftslagsmálum. Skipulag og hönnun framkvæmdaverkefna tekur mið af lágmörkun losunar þegar kemur að efnisvali, umfangi og uppruna, auk losunar í flutningi. Þar sem framkvæmdir vega að jafnaði þungt í umfangi 3 er sérstök áhersla lögð á orkuskipti á framkvæmdastað.   

Losunarkræfni

Þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegrar orku eru metin með tilliti til áhrifa þeirra á losunarkræfni fyrirtækisins. Fyrirtækið vinnur að lækkun losunarkræfni m.a. með fjárfestingum sem stuðla að bættri orkunýtingu í orkuframleiðslunni. Enn fremur fela verkefni innan ramma Auðlindagarðsins í sér möguleika til að lækka losunarkræfni HS Orku með bættri nýtingu auðlindastrauma. Stærstu tækifærin felast í aukinni nýtingu þess varma sem verður til í raforkuframleiðslunni.

Hlutverk rafeldsneytis

Raforkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum greiðir götu (e. enabling factor) notenda í átt að fullum orkuskiptum.

Rafeldsneyti mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Í Orkustefnu fyrir Ísland er lögð áhersla á uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu til að stuðla að innlendum og erlendum orkuskiptum. Þegar kemur að hagnýtingu koltvísýrings gildir að samdráttur í heildarlosun eldsneytis sé að minnsta kosti 70% miðað við samevrópsk viðmið (sbr. RNFBO Evrópureglugerðina).

HS Orka stefnir að því að stærstur hluti CO2 losunar fyrirtækisins fari í verkefni á sviði hagnýtingar (CCU) og stuðli þannig að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Innra kolefnisverð

HS Orka stefnir að því að í ákvarðanatöku verði stuðst við innra kolefnisverð. Í því felst að skilgreind viðmið um markaðsverð losunar koltvísýrings, þ.e. kostnaður fyrir hvert tonn af losun, eru reiknuð inn í fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum til stórra þróunarverkefna.

Loftslagsáhætta

HS Orka kortleggur áhættuþætti og sviðsmyndir vegna loftslagsbreytinga og innleiðir í áhættulíkan fyrirtækisins. M.a. er stuðst við tilmæli Task Force on Climate-Related Financial Disclosures (TCFD) um að helstu áhættuþættir vegna loftslagsbreytinga séu skilgreindir og metnir með tilliti til umfangs og áhrifa. Niðurstöður eru nýttar til að meta þörf á aðgerðum innan fyrirtækisins til að aðlagast breytingum á loftslagi.