Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Umhverfi

Samfélag án sóunar (Heimsmarkmið 9 + 12)

HS Orka leitar allra leiða til útrýma sóun í starfseminni. Það er okkur kappsmál að sú orka sem leyst er úr læðingi sé nýtt með sjálfbærni að leiðarljósi og skili fjölbreyttum samfélagslegum verðmætum. Með fullnýtingu auðlindastrauma, sem og hvers kyns aukaafurða sem falla til við starfsemina, lágmörkum við sóun og stuðlum að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. Innan Auðlindagarðsins vinnum við að því að gera hugmyndir hringrásarhagkerfisins að veruleika.

Ábyrg nýting auðlinda (Heimsmarkmið 7 + 12 + 15)

Ábyrg nýting endurnýjanlegra auðlinda er undirstaða árangurs HS Orku til lengri tíma. Virkt auðlindaeftirlit er grundvallaratriði þegar kemur að því að dýpka skilning okkar á þeim auðlindum sem reksturinn byggir á. Með ítarlegum rannsóknum byggjum við ákvarðanir um framleiðslu á bestu mögulegu gögnum og með hliðsjón af markmiðum fyrirtækisins um sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlinda.

Loftslagsmál (Heimsmarkmið 7 + 13)

HS Orka hefur sett sér markmið um kolefnishlutleysi eigin starfsemi fyrir árið 2040. Samhliða er lögð áhersla á markvissar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í aðfangakeðjunni. Auk markmiðs um kolefnishlutleysi höfum við sett okkur markmið um að losunarkræfni fyrirtækisins verði að hámarki 26 gCO2íg/kWst árið 2030.

HS Orka samræmir loftslagsmarkmið sín við þróunarverkefni sem snúa að samdrætti í losun. Megináhersla er lögð á verkefni sem fela í sér hagnýtingu (CCU) koltvísýrings frá starfsemi fyrirtækisins. Samhliða framgangi slíkra verkefna eru lausnir skoðaðar sem fela í sér endur-niðurdælingu eða bindingu koltvísýrings í jörðu. Enn fremur vinnur HS Orka að því, í samvinnu við aðra hagaðila, að auka þekkingu á náttúrulegri losun koltvísýrings á jarðhitasvæðum til að skilja betur heildarloftslagsáhrif starfseminnar.

Orkuskipti (Heimsmarkmið 7 + 9 + 13)

Kjarnastarfsemi HS Orku gengur út á að nýta endurnýjanlega orku til framleiðslu á heitu vatni og rafmagni. Rafmagnsframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum er undirstöðuatriði orkuskipta bæði hérlendis og á heimsvísu. Við vinnum ötullega að þróun núverandi starfsemi sem og framgangi nýrra verkefna til að tryggja næga orku fyrir sjálfbærara samfélag til framtíðar. Við styðjum við orkuskipti hjá framkvæmdaaðilum og öðrum birgjum, sem og viðskiptavinum, í samræmi við stefnu HS Orku í loftslagsmálum.

Líffræðilegur fjölbreytileiki (Heimsmarkmið 12 + 15)

Við störfum með vísindasamfélaginu og eflum rannsóknir og vöktun með það fyrir augum að mæla og skilja áhrif starfsemi HS Orku á náttúruna. Við skiljum virði líffræðilegs fjölbreytileika og gildi hans fyrir samfélagið. Það á bæði við um vistfræðilegt mikilvægi hans og hin fjölþættu hagrænu verðmæti sem felast í þjónustu vistkerfa (e. ecosystem services). HS Orka grípur til viðeigandi ráðstafana og skilvirkra mótvægisaðgerða, með hliðsjón af starfsemi fyrirtækisins, til að vernda heilbrigði og fjölbreytni vistkerfa.

Samfélag

Mannauður og jafnrétti (Heimsmarkmið 5)

Gildi HS Orku eru ábyrgð, framsækni, lipurð og liðsheild. Þessi gildi eru höfð að leiðarljósi í allri starfsemi fyrirtækisins og á vinnustaðnum. Við setjum skýr markmið um árangur þegar kemur að jafnrétti, fjölbreytni, starfsþróun og starfsánægju. Starfsemi HS Orku samræmist Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Öryggismál og vinnuumhverfi (Heimsmarkmið 12)

Við viljum vera í forystu þegar kemur að öryggismenningu og vinnuvernd. Við setjum skýr og krefjandi markmið og leggjum áherslu á öryggisvitund og samvinnu allra aðila við að tryggja öryggi á athafnasvæðum fyrirtækisins. Öll frávik í öryggismálum fá skýra meðhöndlun og verklag er endurskoðað með reglubundnum hætti til að tryggja fagmennsku, áreiðanleika og framfarir. Fræðsla, gagnsæi, upplýsingagjöf og fyrirbyggjandi aðgerðir eru lykilþættir til að tryggja virkni öryggisreglna meðal starfsfólks, verktaka og þjónustuaðila.

Upplýsingagjöf og samskipti (Heimsmarkmið 12)

Við leitumst við að skilja væntingar og viðhorf ólíkra hagaðila til starfsemi fyrirtækisins. Í því felst að við eigum vönduð samskipti við nærsamfélag og almenning, stjórnvöld og eftirlitsaðila, félagasamtök og viðskiptavini. Með skilningi á starfsumhverfi fyrirtækisins aukum við gæði ákvarðanatöku og greinum tækifæri til framfara. HS Orka miðlar reglubundið upplýsingum um stjórnarhætti og áhrif fyrirtækisins á umhverfi, samfélag og efnahag.

Þátttaka í samfélaginu (Heimsmarkmið 5 + 12)

HS Orka leggur sig fram um að hafa margvísleg jákvæð áhrif á nærsamfélag virkjana sinna og að vera framfaraafl fyrir íslenskt samfélag og efnahagslíf. Samfélagssjóður HS Orku veitir styrki tvisvar á ári til samfélagslega jákvæðra verkefna en þess utan styður fyrirtækið við íþrótta- og æskulýðsfélög og önnur samtök með samningum til lengri tíma. Rannsóknarsjóður HS Orku styrkir námsverkefni og rannsóknir til að auka vísindalega þekkingu á umhverfi og ytri áhrifum starfseminnar og stuðla að framförum.

Stjórnarhættir

Stefnur (Heimsmarkmið 5 + 7 + 9 + 12 + 13 + 15)

Meginstefna HS Orku er leiðarljós fyrir heildarstarfsemi fyrirtækisins. Til viðbótar eru stuðningsstefnur í stöðugri þróun til að tryggja að fyrirtækið fylgi ytri kröfum og bestu viðmiðum. Til að stuðningsstefnur HS Orku þjóni hlutverki sínu og hafi vægi eru þær uppfærðar með reglubundnum hætti svo þær samrýmist þróun starfseminnar, kröfum og skuldbindingum, auk þess að taka mið af væntingum samfélagsins. Uppfærðar stefnur eru kynntar starfsfólki og birtar opinberlega á heimasíðu fyrirtækisins eftir því sem við á.

Stjórnkerfi (Heimsmarkmið 12)

Stjórnkerfi HS Orku kallast Gangverkið og er ætlað að tryggja að fyrirtækið starfi eftir skýrum og skilvirkum ferlum þvert á starfssvið. Við vinnum eftir hugmyndinni um stöðugar framfarir og leitum sífellt leiða til að bæta verklag og yfirsýn. Við leggjum metnað í öfluga skráningu frávika og ábendinga og tryggjum að þau fái skýra og rétta meðhöndlun. Fyrir öll helstu ferli fyrirtækisins eru áhættuþættir greindir með kerfisbundnum hætti og ráðstafanir gerðar til að lágmarka eða eyða þeim. Til að sannreyna gæði vinnulags og tryggja aðhald og trúverðugleika notum við viðeigandi gæðavottanir.

  • Gæðavottanir HS Orku: ISO 9001, ISO 14001, ISO 45001, ÍST 85:2012

Aðföng og aðkeypt þjónusta (Heimsmarkmið 12 + 13)

Almennt gildir að birgjar þurfa að standast sömu kröfur og tryggja sömu réttindi og gilda um starfsfólk HS Orku. Í samræmi við það gerum við skýrar kröfur þegar kemur að umhverfismálum, öryggismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Gerðar eru kröfur til birgja og verktaka í samræmi við Loftslagsstefnu HS Orku og með hliðsjón af ábyrgð fyrirtækisins í mannréttindum og vinnuvernd. Við framkvæmum birgjamat á lykilbirgjum okkar og grípum til viðeigandi aðgerða ef starfsemi birgja samræmist ekki kröfum okkar.