Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Gastegundir á eldvirkum svæðum

Háhitasvæði á Íslandi eru öll nátengd virkum eldstöðvum sem eru flest staðsett á flekaskilunum sem liggja í gegnum Ísland. Varminn sem streymir upp kemur inn á svæðin frá grunnstæðum kvikuinnskotum eða kvikuhólfum. Þegar kvikuinnskot kólna losna kvikugös sem leita flest upp í átt að yfirborði þar sem þau eru léttari en vatn. Hluti lofttegundanna hvarfast við jarðhitavatnið í kerfinu eða við bergið í kring og fellur út sem útfellingar.

Kvikugösin eru að mestu leyti koltvísýringur (CO2) eða brennisteinsvetni (H2S) en jafnframt er lítill hluti þeirra m.a. vetni (H2), nitur (N2) og metan (CH4). Stór hluti kvikugasa eru gróðurhúsalofttegundir þar á meðal CO2.
CO2 leysist upp að hluta til þegar það kemst í snertingu við jarðhitavatn; sé vatnið yfirmettað af karbónatsteindum leitast CO2 við að hvarfast við steindir úr berginu og getur myndað kalkútfellingar (CaCO3).  Einnig getur það borist úr jarðhitakerfinu með afrennsli (t.d. grunnvatni) eða leitað til yfirborðs í gegnum sprungur eða jarðveg þar sem berg er gljúpt eins og raunin er víðast á íslenskum jarðhitasvæðum. Hugmyndalíkan fyrir uppruna og uppstreymi CO2 í gegnum eldvirk háhitakerfi má sjá á mynd 1. 

CO2 Still

Losun gróðurhúsalofttegunda á jarðhitasvæðum

Losun lofttegunda á jarðhitasvæðum, einkum CO2, er mismikil eftir virkni svæðanna og tektónískri uppbyggingu þeirra. Þær jarðhræringar sem hafa gengið yfir Reykjanes síðustu ár hafa til að mynda haft áhrif tektóníska uppbyggingu vinnslusvæða HS Orku þar sem mikill fjöldi nýrra sprungna hefur myndast á jarðhitasvæðunum sem gefa lofttegundum greiða leið upp til yfirborðs.

Mælingar á losun lofttegunda á yfirborði jarðhitasvæða hafa lítið breyst síðustu 20 ár. Utanaðkomandi þættir geta skekkt mælingarnar t.d. veðurfar, en mikilvægt er að taka mælingar af yfirborði jarðhitasvæða við réttar veðuraðstæður. Annar þáttur sem getur skekkt mælingarnar er staðsetning útstreymisins, en erfitt er að áætla hvar á jarðhitasvæðinu það á sér stað. Á jarðhitasvæðum þar sem mikið er um jarðhræringar geta sprungur myndast á svæðinu og skapað greiðari leið fyrir lofttegundir sem leita upp til yfirborðs. Þannig getur verulegt magn loftegunda losnað á stuttum tíma.  Erfitt er að mæla þessa losun.

Áhrif vinnslu á jarðhitasvæðum

Vinnslu á jarðhitasvæðum fylgir losun gróðurhúsalofttegunda sem eru þegar til staðar í kerfinu eins og lýst er að ofan. Borholur fara misdjúpt inn í kerfið og hleypa upp gufu og vatni ásamt þeim lofttegundum sem eru fyrir í kerfinu. Kvikugösin ferðast í gegnum vinnslukerfi jarðvarmavirkjanna og út í andrúmsloftið.

Losunarkræfni HS Orku

Útgefin losunarkræfni HS Orku (þ.e. losun gróðurhúsalofttegunda á hverja framleidda orkueiningu) miðast við að öll bein losun frá jarðvarmavirkjunum fyrirtækisins sé manngerð, a.m.k. þar til rannsóknir leiða annað í ljós. Fyrirtækið metur losunarkræfni starfseminnar út frá árlegri losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1, 2 og 3 og framleiddri raforku og seldum varma

HS Orka hefur sett sér markmið um 40% lækkun fyrir 2030 miðað við árið 2014. Það jafngildir markmiði um lækkun losunarkræfni í 26 g CO2íg/kWh. Árið 2023 var losunarkræfnin 25 g CO2íg/kWh.
Auk þess lauk HS Orka við lífsferilsgreiningar fyrir Svartsengi og Reykjanesvirkjun árið 2023 hvers niðurstöður sýna losunarkræfni yfir áratugalangan líftíma þessara virkjana. Losunarkræfni Svartsengis var metin 43,5 g CO2íg/kWh en  Reykjanesvirkjunar 17,1 g CO2íg/kWh.

Sé þetta sett í samhengi við flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (EU Taxonomy) þá skal losun jarðvarmavirkjunar vera undir 100 g CO2íg/kWst til að fjárfesting í orku teljist sjálfbær.

Heildarlosun

Aðgerðir til að minnka kræfni HS Orku

Í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum vinnur HS Orka m.a. að því að greiða götu verkefna sem snúast um framleiðslu á rafeldsneyti sem myndi nýta CO2 sem annars mun losna frá orkuverunum í andrúmsloftið. Slík rafeldsneyti eru til dæmis metanól, metan eða flugvélaeldsneyti.

Reglugerðir og lagaleg óvissa

Ýmsar reglugerðir hafa verið settar á undanförnum árum með það að markmiði að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum. Flestar reglugerðir eru tilorðnar í samstarfi Evrópuríkja en innleiðing þeirra hér á landi er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Jarðvarmi er lítið þekktur víðast hvar í Evrópu og hvergi jafn veigamikill og á Íslandi. Þannig hefur smám saman skapast sérstök staða og misræmi hvað varðar CO2 frá jarðvarma:

  • Ísland er eina Evrópulandið svo vitað sé sem skilgreinir CO2 frá jarðvarma sem algerlega manngerða losun í kolefnisbókhaldi landsins (ESR).
  • Til viðbótar samþykkti ESB á seinasta ári reglugerð um rafeldsneyti af ólífrænum uppruna þar sem fram kemur að koltvísýringur frá jarðvarmavirkjunum er ekki frádráttarbær í losunarbókhaldi þeirra sé hann hagnýttur í gerð endurnýjanlegs rafeldsneytis, nema hægt sé að sýna fram á að koltvísýringurinn hafi áður losnað með náttúrulegum hætti.  Eins og lýst er að ofan er erfitt um vik að sanna slíkt.

Þetta skapar þar að auki mótsagnir innan sem milli reglugerða:

  • Skv ESB-reglugerðinni um rafeldsneyti af ólífrænum uppruna telst rafmagn sem framleitt er með jarðvarma gjaldgengt til notkunar við rafeldsneytisframleiðsluna óháð því hvort CO2 úr sömu auðlind sé samþykkt til framleiðslunnar eða ekki.
  • Samkvæmt flokkunarreglugerð Evrópusambandsins er rekstur orkuvera HS Orku sjálfbær, jafnvel þegar öll losun þeirra er skilgreind sem manngerð.  Reglugerðin skapar þannig hvata til áframhaldandi rekstrar orkuveranna.  Það skýtur því skökku við ef ekki er hvati til að nýta CO2 í útblæstrinum til rafeldsneytisframleiðslu.

Lagaleg óvissa eins og að ofan er lýst veldur því að síður en ella verður ráðist í hagkvæmar aðgerðir til að minnka losun frá jarðvarmavirkjunum. Útfærsla reglugerðanna veldur því að markmið þeirra um raunverulegan árangur í loftslagsmálum hefur farið forgörðum að einhverju leyti.

HS Orka hefur sett skýr markmið um samdrátt í losun þess koltvísýrings sem fer um vinnslurásir fyrirtækisins. Þessi markmið eru óháð því hvort uppruninn sé talinn náttúrulegur eða ekki. Til að ná þessum markmiðum stefnir HS Orka að því að hagnýta eins mikið af losuninni og hægt er en það sem ekki verður hagnýtt yrði dælt aftur niður í jarðhitasvæðið. Óvissan sem nú er uppi snýst um það hvort HS Orka og íslenska ríkið geti talið til frádráttar í losunarbókhaldi sínu þann koltvísýring sem verður nýttur til framleiðslu á rafeldsneyti eða beint í endurniðurdælingu.