Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Öryggis- og vinnuverndarstefna

Stjórnun öryggis- og vinnuverndarmála  

Áhætta sem tengist öryggi fólks í vinnuumhverfinu er metin og nauðsynleg varnarlög skilgreind í samræmi við mat á umfangi. Áhætta er metin fyrir öll reglubundin verk og yfirfarin reglulega með aðkomu starfsfólks og stjórnenda. Við vinnum að stöðugum framförum á sviði öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmála. Öll frávik í öryggismálum fá skýra meðhöndlun og verklag er endurskoðað með reglubundnum hætti til að tryggja örugga framkvæmd verka, framfarir og áreiðanleika. Með skýrum ferlum og frávikaskráningu er leitast við að draga lærdóm af atvikum svo koma megi í veg fyrir endurtekningu. Fræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir eru lykilþættir til að tryggja virkni öryggisreglna, bæði meðal starfsfólks HS Orku og verktaka. Stjórnendur bera ábyrgð á því að vinnuaðstaða og aðbúnaður starfsfólks sé í samræmi við bestu öryggisviðmið.  

Árlega standa starfsfólki til boða heilsufarsskoðanir sem tengjast vinnutengdri áhættu svo sem vegna hávaða, áhrifa mengunar, líkamlegs og andlegs álags o.s.frv.  

Þátttaka starfsfólks og öryggismenning  

Allt starfsfólk HS Orku og verktakafyrirtækja lýkur öryggisnámskeiði við upphaf starfs á svæðum HS Orku. Færni í öryggis- og vinnuverndarmálum er styrkt og viðhaldið með reglulegri og markvissri þjálfun. Sérstök áhersla er lögð á þjálfun starfsfólks í beitingu „lífsnauðsynlegra varna“. 

Starfsfólki er gert kleift að koma með ábendingar til framfara og ber það jafnframt ábyrgð á því að fylgja settu verklagi. Á starfsmannafundum eru tekin dæmi um framfarir og frávik og aðgerðir ræddar meðal starfsfólks.  

Fylgst er með þróun á viðhorfi og virkri þátttöku starfsfólks í öryggismálum. Það er meðal annars gert með  púlsmælingum að lágmarki tvisvar á ári og ýtarlegri könnun á tveggja ára fresti. 

HS Orka leggur sitt af mörkum til bættrar öryggismenningar í samfélaginu sem heild. Því tekur fyrirtækið þátt í samstarfi og samtali við samtök og einkaaðila um framfarir og þróun öryggis- og vinnuverndarmála. Liður í þessu er að kynna hagaðilum vinnu okkar í málaflokknum. 

Markmið

Fyrir hvert ár setur HS Orka sér krefjandi, vel skilgreind og mælanleg markmið með það fyrir augum að draga úr líkum á að starfsfólk og verktakar verði fyrir slysum eða heilsubresti við störf sín. Megináhersla er á forvirka mælikvarða og markmið þeim tengdum. Markmið eru borin upp og samþykkt í ferlaráði sem rýnir árangur mánaðarlega og eru niðurstöður mælinga hluti af reglubundinni birtingu sjálfbærniupplýsinga.