Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Mannauðsstefna

HS Orka tryggir að vinnustaðurinn einkennist af fagþekkingu, heiðarleika, jafnrétti og gagnkvæmri virðingu. Til að ná fram settum markmiðum hefur HS Orka í röðum sínum hæft, áhugasamt og vel menntað starfsfólk, sem axlar ábyrgð og sýnir framsækni í starfi, bregst við síbreytilegum þörfum og tekur þannig virkan þátt í framþróun fyrirtækisins. Við leitum í sífellu tækifæra og nýrra leiða til að viðhalda og bæta starfsánægju og góðum starfsanda. 

Öflug forysta og liðsheild  

Hjá HS Orku starfar öflugt og virkt starfsfólk sem sýnir góð fordæmi og er með skýra framtíðarsýn. Stjórnendur hvetja starfsfólk og efla frumkvæði og lipurð.   

Áhersla er lögð á liðsheild, framfarir og markvissa miðlun upplýsinga og þekkingar innan fyrirtækisins. Starfsfólk á jákvæð og uppbyggileg samskipti með áherslu á virðingu og gagnkvæma ábyrgð á verkefnum og þeirri menningu sem einkennir fyrirtækið.  

Siðareglur HS Orku gilda um öll samskipti stjórnenda og starfsfólks.  

Heilsa og vellíðan starfsfólks  

Starfsfólk okkar fær hvatningu og svigrúm til að stunda heilsurækt til að efla líkama og sál. HS Orka veitir fjárhagslegan stuðning til að auðvelda ástundun og gjafir til starfsmanna endurspegla markmið um heilsueflingu og vellíðan. 

HS Orka starfar samkvæmt lögum og reglum á vinnumarkaði um aðbúnað starfsfólks. Við tryggjum starfsfólki þau lífsgæði sem felast í heilsusamlegu og öruggu vinnuumhverfi, viðeigandi fræðslu og þjálfun.  

HS Orka gerir starfsfólki sínu kleift að halda jafnvægi á milli starfs og einkalífs og þess er gætt að yfirvinnu sé haldið innan hóflegra marka.  

Það er sameiginlegur ávinningur allra að vinnuaðstaða og aðbúnaður í fyrirtækinu sé til fyrirmyndar. 

Árlega er boðið upp á ítarlega heilsufarsskoðun þar sem lögð er áhersla á líkamlega og andlega heilsu. Starfsfólki er boðið upp á viðeigandi eftirfylgni eða úrræði ef þörf krefur. Auk þess eru reglulega framkvæmdar „púlsmælingar“ til að geta metið líðan og starfsánægju starfsfólks. Boðið er upp á næringarríkan og fjölbreyttan hádegismat og aðgengi er að hollum millibita.  

Jafnrétti og mannréttindi  

HS Orka gætir fyllsta jafnréttis þegar kemur að mannauði fyrirtækisins og er sérhver einstaklingur metinn að verðleikum. Þetta á meðal annars við um sveigjanleika, símenntun, starfsþróun og kjör fyrir sambærileg störf. 

Við tryggjum vernd mannréttinda starfsfólks í samræmi við lög, reglur og alþjóðlega samninga og skuldbindingar og virðum félagafrelsi starfsfólks okkar. Meðal annars er unnið eftir Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Jafnréttissáttmála UN Women. HS Orka tryggir starfsfólki sínu laun og réttindi í samræmi við gildandi lög og reglur.  

Það er sameiginleg ábyrgð allra sem starfa hjá HS Orku að koma í veg fyrir einelti, kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi. Til eru viðeigandi ferlar til að takast á við brot og álitamál er varða jafnrétti, mannréttindi eða hvers kyns ofbeldi. 

Ráðningar, starfsþróun og starfslok  

HS Orka ræður ávallt sem hæfasta einstaklinga til starfa og byggjast ráðningar á hæfni, menntun og reynslu viðkomandi. Við ráðningar er gildandi jafnréttisáætlun ávallt höfð til hliðsjónar. HS Orka tekur vel á móti nýju starfsfólki og tryggir að það fái viðeigandi upplýsingar og starfsþjálfun.   

HS Orka styður við starfsþróun og menntun starfsfólks til að efla þekkingu og faglega hæfni og er það á ábyrgð bæði starfsfólks og stjórnenda. Frammistöðusamtöl eru framkvæmd a.m.k. árlega þar sem hagsmunir starfsfólks og fyrirtækisins mætast í samtölum um gagnkvæmar kröfur, væntingar og endurgjöf. 

HS Orka hefur sveigjanleika að leiðarljósi við starfslok ef hægt er. Almennt er miðað við að starfslok verði við 70 ára aldur en tekið er mið af vilja, hæfni og sameiginlegum ávinningi varðandi breytingar á starfshlutfalli fyrir þann aldur eða umfram almenn aldursviðmið.