„HS Orka sýndi styrk sinn svo um munar á árinu. Styrkurinn speglast í því að tekist hefur að halda daglegum rekstri orkuvera fyrirtækisins stöðugum þrátt fyrir aðsteðjandi náttúruvá en eldsumbrot og jarðhræringar höfðu óveruleg áhrif á orkuvinnslu og framkvæmdir HS Orku á árinu.
Lokið var við endurfjármögnun fyrirtækisins á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum við krefjandi aðstæður og víðtæk tryggingavernd félagsins var endurnýjuð.
Umfangsmikil stækkun og endurbætur á orkuverinu í Svartsengi hafa gengið vonum framar þrátt fyrir að framkvæmdir hafi legið niðri um tíma vegna eldsumbrota og endurtekinna rýminga á svæðinu. Vel hefur gengið að vinna upp tafir sem af því hlutust og verður ný virkjun í Svartsengi, orkuver 7, gangsett síðar á þessu ári.”
Sterk fjárhagsstaða
Heildartekjur ársins námu um 14,6 milljörðum króna og aukast um 10% á milli ára. Munar þar mestu um aukna raforkusölu á almennum markaði, til stórnotenda og í heildsölu. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 31 milljarði í árslok, eiginfjárhlutfall er 39%.
HS Orka endurfjármagnaði skuldir félagsins á árinu 2024 og tryggði lánalínur fyrir áframhaldandi uppbyggingu hér á landi. Fjármögnunin nær til yfirstandandi stækkunar og endurbóta orkuversins í Svartsengi. Hún er mikilvægt skref í metnaðarfullum áformum um frekari vöxt félagsins í jarðvarma og vatnsafli, sem byggjast á orkukostum í nýtingarflokki rammaáætlunar. Lánsfjárhæðin nemur að jafnvirði um 290 milljónum dala eða um fjörutíu milljörðum íslenskra króna. Lánveitendur eru íslenskir og alþjóðlegir bankar og sjóðir. Þá var víkjandi hluthafalán eigenda framlengt um tæplega fimm ár en lánið var upprunalega veitt í nóvember 2022 sem hluti af fjármögnun til stækkunar á virkjuninni í Svartsengi.
Umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum á Reykjanesi
Framkvæmdir við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi gengu vel á árinu eftir tafir í upphafi árs vegna eldsumbrota. Fyrsta skóflustungan að þessu stóra innviðaverkefni var tekin í árslok 2022. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður ríflega 12 milljarðar króna og er stefnt að gangsetningu fyrir lok árs 2025.
Tveimur borverkefnum HS Orku á Reykjanesi lauk á árinu en borað var utan hins þekkta vinnslusvæðis við Reykjanesvirkjun. Bundnar eru vonir við að boranirnar gefi góða raun og að holurnar nýtist við núverandi vinnslu á svæðinu.
Helstu niðurstöður úr ársuppgjöri samstæðu
Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 5.493 milljónir króna árið 2024 samanborið við 6.013 milljónir króna árið áður og lækkar því um 9% á milli ára. Tap fyrir skatta nam 610 milljónum króna samanborið við hagnað fyrir skatta að fjárhæð 1.783 milljónir árið 2023.
Fjármagnsliðir setja verulegt mark á afkomu félagsins milli ára. Í stórum dráttum skýrist breytingin af óhagstæðum gengismun að fjárhæð 70 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við gengishagnað að fjárhæð 1.019 milljónir króna árið áður. Samhliða framkvæmdum í Svartsengi hækkuðu nettó fjármagnsgjöld um 947 milljónir króna á milli ára, voru 2.646 milljónir 2024 en 1.700 milljónir 2023.
Fastafjármunir jukust um 7,2 milljarða á milli ára sem skýrist aðallega af nýfjárfestingum vegna stækkunar orkuversins í Svartsengi auk holuborana á Reykjanesi. Veltufjármunir drógust saman um 2,7 milljarða sem skýrist að mestu af lækkun handbærs fjár, vegna framkvæmda í Svartsengi.
Að hluthafaláni frátöldu hækkuðu vaxtaberandi skuldir um 2,8 milljarða á milli ára. Hækkunin skýrist að mestu af framkvæmdum í Svartsengi.
Lykiltölur
- Heildartekjur námu 14,6 milljörðum og hækka um 1,3 milljarða (10%) á milli ára. Rekstrargjöld voru um 11,9 milljarðar og hækka um 1,8 milljarða frá árinu 2023. Hækkun rekstrargjalda skýrist að miklu leyti af hækkun raforkuverðs og áhrifum á orkukaup félagsins, ásamt kostnaði vegna viðbragða við náttúruhamförum.
- Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 5.493 milljónir króna árið 2024 samanborið við 6.013 milljónir árið áður og lækkar því um 9% á milli ára.
- Tap fyrir skatta nemur 610 milljónum króna samanborið við hagnað upp á 1.783 milljónir á árinu 2023.
- Heildareignir félagsins voru um 80 milljarðar í lok árs og aukast um 6% milli ára.
- Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 31,2 milljörðum króna í árslok. Eiginfjárhlutfall er 39% en 47% að meðtöldu víkjandi láni frá hluthöfum. Ekki var greiddur út arður á árinu.
Sjálfbærniskýrsla HS Orku 2024
Samhliða útgáfu ársreiknings gefur HS Orka út sjálfbærniskýrslu fyrir 2024. Í skýrslunni eru greinargóðar upplýsingar um ófjárhagslega þætti í rekstri fyrirtækisins á liðnu ári og ljósi er varpað á fjölbreytt verkefni þess. Skýrslan styðst við alþjóðlega staðla (GRI/ESRS) um sjálfbærniupplýsingagjöf og eru sérstaklega merktir þeir kaflar skýrslunnar sem eru staðfestir af ytri aðila (KPMG ehf).
Aðgerðir til styrkingar hitaveitu
Í sjálfbærniskýrslu ársins 2024 er gerð grein fyrir helstu viðbragðsaðgerðum HS Orku og samstarfi við hag- og viðbragðsaðila vegna yfirstandandi náttúruvár. Í skýrslu ársins 2024 er jafnframt farið sérstaklega yfir aðgerðir sem snúa að styrkingu hitaveitu fyrir Suðurnesin. Unnið hefur verið að því síðastliðin ár að efla heitavatnsframleiðslu í Svartsengi en um er að ræða nokkur sjálfstæð verkefni sem saman eiga að leiða til aukinnar framleiðslugetu. Jafnframt er fjallað um aðgerðir yfirvalda, samstarf almannavarna, HS Veitna og HS Orku sem lúta að þróun varahitaveitu fyrir Suðurnesin og framtíðaruppbyggingu á hitaveitu utan Svartsengis.
Álitamál tengd losun koltvísýrings
Losunartölur ársins 2024 og mælingar á einstökum borholum sýna glöggt áhrif jarðhræringa til aukinnar losunar koltvísýrings í Svartsengi. Í sjálfbærniskýrslunni er fjallað um brýn álitamál er snúa að regluverki og loftslagsmálum og hvort rétt sé að skilgreina losun jarðvarmavirkjana sem manngerða en ekki náttúrulega losun í kolefnisbókhaldi fyrirtækja og ríkis. Það er mat HS Orku að mikilvægt sé að tryggja að lagarammi fyrir hagnýtingu koltvísýrings frá jarðvarma hefti ekki framgang brýnna orkuskiptaverkefna.
Flokkunarreglugerð ESB og skýrsla um græna fjármögnun
Sjálfbærniskýrslan 2024 inniheldur ítarlegri upplýsingar en áður um gjaldgengi og umhverfissjálfbærni starfsemi HS Orku með hliðsjón af viðmiðum flokkunarreglugerðar ESB (e. EU Taxonomy). Þar er sjálfbærni starfseminnar í fyrsta sinn metin heildstætt út frá flokkunarreglugerðinni og upplýsingar settar fram sem hlutfall af tekjum, rekstrarkostnaði og fjárfestingum. Í sjálfbærniskýrslunni er einnig að finna skýrslu um græna fjármögnun fyrirtækisins en endurfjármögnun HS Orku á árinu var að hluta gerð í samræmi við grænan fjármögnunarramma fyrirtækisins.
Ýmsar viðurkenningar
HS Orka er stolt af því að hafa hlotið viðurkenningarnar Framúrskarandi fyrirtæki 2024 og Fyrirmyndarfyrirtæki 2024 ásamt viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2024. Þá hlaut HS Orka UT-verðlaun Skýs í flokki stafrænnar opinberrar þjónustu fyrir sjálfvirkt eldgosaviðvörunarkerfi, sem auðlindastýring HS Orku hefur þróað. Einnig fékk HS Orka „Gold“ einkunn í sjálfbærnimati alþjóðlega matsfyrirtækisins EcoVadis á árinu. Það staðsetur fyrirtækið í efstu 5% fyrirtækja með tilliti til utanumhalds sjálfbærnimála og er niðurstaðan í senn viðurkenning og hvatning.
Stjórn HS Orku
Á aðalfundi 28. apríl 2025 voru endurkjörin í stjórn þau Adrian Pike, stjórnarformaður, Bjarni Þórður Bjarnason, varaformaður, Heike Bergmann, meðstjórnandi og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, meðstjórnandi. Til vara voru kosin Gunnar Jóhannsson, Margrét Sveinsdóttir, Olli Mononen og Mei Niu.
Um HS Orku
HS Orka byggir á traustum grunni Hitaveitu Suðurnesja sem var stofnuð í árslok 1974. Frá upphafi hefur fyrirtækið verið í forystu um framleiðslu á endurnýjanlegri orku á Íslandi og er þriðji stærsti raforkuframleiðandi landsins. Eignarhald skiptist að jöfnu milli Jarðvarma, sem er samlagshlutafélag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, og sjóða í stýringu Ancala, sjóðastýringafélags með höfuðstöðvar í Bretlandi.
Nýsköpun hefur ávallt verið hluti af kjarnastarfsemi HS Orku. Uppbygging Auðlindagarðs HS Orku er í fyrirrúmi þar sem áhersla er lögð á fullnýtingu auðlindastrauma frá jarðvarmavirkjunum. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi, vatnsaflsvirkjunina Brúarvirkjun í Biskupstungum og Fjarðarárvirkjanir í gegnum dótturfyrirtækið Íslensk Orkuvirkjun Seyðisfirði.
