Rekstur orkuveranna á Reykjanesi er nú í jafnvægi eftir nokkrar ágjafir í morgun í kjölfar skemmda á innviðum af völdum hraunrennslis frá eldgosinu við Stóra Skógfell á Sundhnúksgígaröðinni.
Raforkuframleiðsla í Svartsengi liggur niðri vegna tjóns á Svartsengislínu Landsnets en heitavatnsframleiðsla í orkuverinu hefur haldist órofin þrátt fyrir það. Einnig tókst vel að lágmarka truflanir sem urðu í raforkukerfinu fyrr i dag. Neyðarstjórn HS Orku er áfram að störfum og fylgist grannt með framvindu eldgossins.
Heitavatnsframleiðsla í Svartsengi stöðug
Svartsengislína Landsnets fór út í morgun af völdum hita frá hrauni sem rann undir hana og ræðst Landsnet í viðgerðir á henni um leið og aðstæður leyfa. Starfsfólk HS Orku hafði undirbúið þá sviðsmynd að halda heitavatnsframleiðslu órofinni jafnvel þótt Svartsengislína skemmdist og raforkuframleiðsla orkuversins stöðvaðist af þeim sökum. Framleiðslusvið HS Orku var búið að kortleggja stöðuna og ræsa varaflsstöðvar Svartsengis áður en línan rofnaði. Nýjar varaflstöðvar voru settar upp í Svartsengi fyrir tveimur árum, til viðbótar öðrum varaleiðum, en þær auka til muna öryggið í því að halda stjórnkerfum orkuversins gangandi.
Slípað viðbragð
Allt viðbragð, frá því að eldgos hófst á tólfta tímanum í gærkvöldi, hefur verið fumlaust og vandaður undirbúningur starfsfólks, í samstarfi við aðra viðbragðsaðila, varð til þess að truflanir á Suðurnesjum hafa verið í lágmarki í dag. Viðbragð allra sem að málum koma er orðið nokkuð slípað enda er þetta sjöunda gosið í röð á ellefu mánuðum.
Njarðvíkuræðin stendur sig undir hrauni
Sá hluti Njarðvíkuræðarinnar, heitavatnslagnarinnar frá Svartsengi að Fitjum, sem búið var að leggja í jörðu er nú kominn undir nýja hraunið á um 600 metra löngum kafla. Njarðvíkuræðin var í upphafi árs lögð í jörðu á 1,5 kílómetra löngum kafla út frá varnargörðunum en framkvæmdin var liður í viðbragðsáætlun vegna yfirvofandi eldsumbrota. Kaldavatnslögn liggur einnig undir hrauni á sama kafla.
Ekki hefur orðið vart teljandi hitabreytinga á vatninu í lögnunum og því virðist kæling í þeim enn vera næg. Engin merki eru um að lagnirnar séu að gefa sig og reynslan af lögnum undir hrauni við Grindavík sýnir að þær eiga að geta staðist mikið álag. Allt viðgerðarefni er þó til staðar sem og viðbragðið ef skemmdir verða á lögnunum.
Landsnet undirbýr viðgerðir
Svartsengislína er hluti af flutningskerfi Landsnets. Samkvæmt upplýsingum Landsnets mun taka nokkra daga að gera við háspennulínurnar að gosi loknu. Allt efni er tiltækt ásamt mannskap og tækjum og verður ráðist í framkvæmdir um leið og aðstæður leyfa.
Beðið átekta með framkvæmdir í Svartsengi
Um tíu starfsmenn HS Orku hafa sinnt eftirliti í orkuverinu í Svartsengi í dag með leyfi frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Vaktmenn munu þó fjarstýra verinu frá Reykjanesvirkjun í nótt. Framkvæmdir við stækkun og endurbætur í orkuverinu í Svartsengi hafa legið niðri í dag en stefnt er að því að hefja vinnu þar aftur á morgun að því gefnu að öryggi starfsfólks sé að fullu tryggt, ekki síst með tilliti til gasmengunar. Gasspáin í Svartsengi fyrir næsta hálfa sólarhring er hagstæð en tvísýnna er með spána eftir það.