Sunna Björg Helgadóttir, sem stýrt hefur tæknisvið HS Orku síðastliðin fimm ár, hefur verið ráðin forstjóri Rio Tinto á Íslandi. Hún tekur við af Rannveigu Rist í vor en Rannveig hefur setið í stól forstjóra frá 1997.
Sunna Björg hefur langa og fjölbreytta reynslu af stjórnunarstörfum, meðal annars á sviði áliðnaðar og orkuframleiðslu. Hún þekkir vel til starfsemi Rio Tinto á Íslandi en hún hóf ferilinn sem sumarstarfsmaður og starfaði síðan samfellt hjá fyrirtækinu á árunum 2001 – 2015, síðast sem framkvæmdastjóri kerskála.
Undir stjórn Sunnu hjá HS Orku var Reykjanesvirkjun stækkuð um 30 MW árið 2022 og einnig ráðist í stækkun og endurbætur á Svartsengisvirkjun þar sem ný vélarsamstæða var gangsett í lok síðasta árs. Einnig leiddi hún fyrstu djúprannsóknarboranir fyrirtækisins við Sveifluháls í Krýsuvík síðastliðið sumar.
Það er sannarlega sjónarsviptir að Sunnu úr stjórnendahópi HS Orku en maður kemur í manns stað og tekur Yngvi Guðmundsson, yfirverkfræðingur HS Orku, við stöðu hennar í byrjun marsmánaðar.
Við hjá HS Orku samgleðjumst Sunnu innilega og erum afar stolt af framgangi hennar. Við óskum henni alls velfarnaðar í nýju starfi.