Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og Auðlindagarðs HS Orku, hefur verið skipaður skrifstofustjóri orkumála í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Tók skipunin gildi um áramót. Skrifstofa orkumála er ný af nálinni og hluti af umfangsmiklum skipulagsbreytingum sem gerðar hafa verið innan ráðuneytisins. Alls var skipað í fjórar stöður skrifstofustjóra í ráðuneytinu um áramót eins og fram kemur á vef stjórnarráðs Íslands.
Jón hefur starfað hjá HS Orku í sex ár og á þeim tíma leitt stefnumótun fyrirtækisins og innleitt ýmsar mikilvægar breytingar sem ráðist hefur verið í innan þess. Hann hefur einnig unnið málsvarastarf fyrir fyrirtækið og orkugeirann, jafnt innanlands sem erlendis. Á vettvangi Auðlindagarðsins hefur Jón leitt fjölbreytt þróunarverkefni og samningaviðræður vegna verkefna sem lúta meðal annars að orkuskiptum með nýtingu koltvísýrings frá jarðvarma.
Áður starfaði Jón lengst af hjá Rio Tinto; fyrst í rúm tíu ár í Straumsvík þar sem hann var meðal annars framkvæmdastjóri steypuskála og síðan í önnur tíu ár í París og Montreal. Þar gegndi hann ýmsum stjórnunarstöðum á sviði sölu- og markaðsmála, við innkaupastjórnun og í viðskiptaþróun.
Það verður mikill hvalreki fyrir íslenska stjórnsýslu að fá að njóta krafta og reynslu Jóns. Auk fjölbreyttrar reynslu þekkir hann vel til orkumála og hefur verið fulltrúi HS Orku í ýmsum sameiginlegum verkefnum íslenskra orkufyrirtækja sem m.a. hafa miðað að því að gæta hagsmuna Íslands og opna augu stjórnvalda í Evrópusambandinu fyrir eðli og gagnsemi jarðvarma og mikilvægi hans í orkuskiptum þjóða. Jón átti meðal annars þátt í undirbúningi ráðstefnunnar Our Climate Future sem haldin var í Brussel nýverið.
Það er mikil eftirsjá af Jóni úr okkar röðum en við hjá HS Orku þökkum honum frábært samstarf og viðkynningu á síðustu árum um leið og við óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.