Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Jarðborinn Þór borar á nýju svæði á Reykjanesi

Tilgangur borunarinnar er að rannsaka suðausturjaðar jarðhitasvæðisins í misgenginu á Reykjanesi, utan við núverandi vinnslusvæði, en svæðið hefur ekki verið kannað áður.

Jardborinn Thor Kristinn Ofl (1)
Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku, ásamt bormönnum Þórs.

Þótt jarðhræringar hafi einkennt starfsemi HS Orku undanfarnar vikur ganga flest verkefni samkvæmt áætlun. Meðal þeirra eru rannóknarboranir sem standa nú yfir við Háleyjarbungu á Reykjanesi, skammt frá Reykjanesvirkjun, en ekki hefur áður verið borað á þessu svæði. Bormenn eru þegar komnir niður á tæplega 1300 metra dýpi en áætlað er að bora niður á 2700 metra í von um að holan nýtist annað hvort til gufuvinnslu eða til niðurdælingar á jarðhitavökva sem styðja myndi við núverandi vinnslu á svæðinu. Um einn milljarð króna kostar að bora eina slíka holu fyrir utan kostnað við tenginguna.

Borað með rafmagni

Það eru Jarðboranir sem sjá um verkið og hófust bormenn handa fyrir tveimur mánuðum eða 9. nóvember, daginn fyrir jarðhræringarnar miklu í Grindavík. Náttúruhamfarirnar á Reykjanesskaganum hafa þó lítil sem engin áhrif haft á framgang borunarinnar. Jarðborinn Þór er notaður til verksins en hann er öflugasti bor félagsins og knúinn með rafmagni. Verkefnið var lengi í undirbúningi en fyrr á árinu gerðu HS Orka og Jarðboranir samning um borun á vinnslusvæðum HS Orku, bæði á Reykjanesi og í Svartsengi. Til stóð að byrja borun í Svartsengi en í ljósi jarðhræringa með tilheyrandi óvissu var ákveðið að hefja borun á Reykjanesinu. Rannsóknarholurnar verða boraðar með Þór en HS Orka leggur ríka áherslu á að borað sé með rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis þar sem því verður við komið.

Jardborinn Thor (1)
Athafnasvæði Jarðborsins Þórs á Reykjanesi.

Líkön undirstaða rannsóknanna

Tilgangur borunarinnar er að rannsaka suðausturjaðar jarðhitasvæðisins í misgenginu á Reykjanesi, utan við núverandi vinnslusvæði, en svæðið hefur ekki verið kannað áður. Lilja Magnúsdóttir, deildarstjóri auðlindastýringar HS Orku, segir að vel hafi tekist til við að byggja upp gott forðafræðilíkan af jarðhitakerfinu á Reykjanesi sem hermir vel sögulegan þrýsting og hitastig. Ásamt hugmyndalíkani nýtist forðafræðilíkanið vel til að afmarka þau svæði sem talin eru álitleg til rannsóknarborunar.

„Engin jarðhitahola hefur verið boruð á þessu svæði í suðaustri við kerfið og eru gögnin því takmörkuð en styðja þó að möguleiki sé á að jarðhiti geti verið þar til staðar. Það myndi þá stækka núverandi vinnslusvæði og gera okkur kleift að dreifa úr jarðhitavinnslu virkjunarinnar. Ef jarðhiti er ekki til staðar, benda gögn til þess að staðsetning holunnar sé góð fyrir niðurdælingu vökva inn í kerfið með það að markmiði að styðja við þrýsting í núverandi vinnslusvæði.“

Lilja
Lilja Magnúsdóttir, deildarstjóri auðlindastýringar HS Orku.

Vísindavinna á heimsmælikvarða

Auðlindastýring HS Orku er skipuð jarðvísindafólki í fremstu röð og byggja borunarverkefnin á mælingum og líkanagerð á bestu fáanlegu vitneskju um jarðkerfin á svæðinu. Þótt Lilja segi of snemmt að spá fyrir um útkomuna styðji steindir sem fundist hafa við borunina að hiti hafi áður verið til staðar á borsvæðinu:  „Við höfum fundið epidote og actinolite-steindir í borsvarfinu sem benda til þess að hitinn hafi á einhverjum tímapunkti náð 280°C. Við það hitastig myndast actinolite-steindir í berginu. Við erum því spennt að sjá hvort sá hiti sé enn til staðar en mögulega hefur kerfið kólnað síðan þá.“

Bormenn frá ýmsum heimshornum

Þrátt fyrir jarðhræringar og ýmsar tafir sem ávallt eru viðbúnar við slíkar jarðboranir hefur tekist vel til við verkefnið á Reykjanesi og bormenn vinna allan sólahringinn á vöktum. Samstarfið við Jarðboranir hefur verið til fyrirmyndar og ljóst að þar á bæ er valinn maður í hverju rúmi. Starfsmenn Jarðborana koma frá ýmsum heimshornum en í þessu tiltekna verkefni starfa nú menn frá Níkaragva, Mexíkó, Króatíu, Póllandi og Bretlandi auk Íslendinga.

Jardborinn Thor Trio
Bormenn Jarðborana koma frá ýmsum heimshornum auk Íslands.

Næsta borhola handan við hornið

Ef allt gengur að óskum verður borun á þessum stað lokið um mánaðamótin janúar og febrúar og þá heldur mannskapurinn beint í næsta verk sem er önnur rannsóknarhola á svipuðum slóðum á Reykjanesinu. Vonir standa svo til þess að hægt verði að huga að borunum í Svartsengi þegar líður lengra á árið en þær boranir verða þó alfarið háðar duttlungum náttúrunnar.

Jardborinn Thor Stjornklefi
Það er í mörg horn að líta fyrir þann sem ræður ríkjum í stjórnklefa jarðborsins Þórs.
Jardborinn Thor 1
Jarðborinn Þór í návígi á Reykjanesi.
Jarborinn Thor Frkvstj
Hluti framkvæmdastjórnar HS Orku kynnti sér borverkið á Reykjanesi í upphafi árs undir leiðsögn Halldórs Halldórssonar, umhverfis-, öryggis- og gæðastjóra Jarðborana.