Rafmagn komst á byggð á Seyðisfirði um sexleytið í morgun þegar Fjarðarárvirkjanir HS Orku voru settar í eyjarekstur. Reksturinn gengur vel og er stöðugur. Rafmagn fór af byggð um tvöleytið í nótt vegna ísingar á flutningslínum Landsnets en vont veður tefur bilanaleit og viðgerð.
Þetta er fyrsta sinn sem reynir á eyjarekstur Fjarðarárvirkjana þegar bilun hefur orðið í flutningskerfinu en HS Orka réðst í umtalsverðar endurbætur og uppfærslu á stjórnbúnaði á virkjununum snemma árs 2024 svo mögulegt yrði að reka Seyðisfjörð sem eyju. Við þær aðgerðir jókst raforkuöryggi Seyðfirðinga til mikilla muna.
Á meðan á eyjarekstrinum stendur framleiða Fjarðarárvirkjanir ekki orku inn á meginflutningskerfi Landsnets.
HS Orka keypti Fjarðarárvirkjanir síðla sumars 2023 og hefur frá þeim tíma unnið að ýmsum endurbótum auk þess sem stjórnbúnaður virkjananna hefur verið endurnýjaður.
Frétt um endurbætur Fjarðarárvirkjunar og mögulega eyjakeyrslu frá 15. apríl 2024:
Raforkuöryggi Seyðfirðinga eykst til muna með nýjum stjórnbúnaði í Fjarðarárvirkjunum - HS Orka