Nær allar fiskimjölsverksmiðjur landsins eru nú komnar í viðskipti við HS Orku um raforkukaup en sú síðasta, Síldarvinnslan á Neskaupsstað, samdi við fyrirtækið nú á haustmánuðum. Verksmiðjurnar, sem bæði geta nýtt rafmagn og olíu, hafa jafnt og þétt fært sig yfir í raforku á árinu í takt við batnandi stöðu í raforkubúskap landsins og lægra orkuverð.
Ótvíræðir kostir raforkunnar
Margvíslegir kostir fylgja því þegar orkufrekar vinnslur á borð við fiskimjölsverksmiðjur skipta yfir í raforku. Fyrst má nefna að raforkan er innlendur sjálfbær orkugjafi sem kemur í staðinn fyrir innfluttan óendurnýjanlegan orkugjafa með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði. Í annan stað er notast við orkuinnviði sem samfélagið hefur þegar kostað miklu til við að byggja. Síðast en ekki síst nýtur umhverfið góðs af orkuskiptunum því ef olía er brennd í því magni sem þarf til að standa undir vinnslunni yrði útblásturinn um 25.000 tonnum af CO2 meiri en við raforkunotkun. Þetta jafngildir meðaleyðslu 9.300 eldsneytisbíla.
Okkur hjá HS Orku þykir afar ánægjulegt að taka þátt í þessari vegferð.
Blikur á lofti um næstu áramót
Allar fiskimjölsverksmiðjur, að verksmiðju Brims á Akranesi undanskilinni, hafa getað nýtt rafmagn á árinu 2025. Ástæða þess að Akranes er þar undanskilið er sú að þar er ekki skerðanlegur raforkuflutningur í boði. Þetta er lykilatriði fyrir verksmiðjurnar því með forgangsorkuflutningi tvöfaldast og jafnvel þrefaldast orkukostnaður borið saman við það ef olía er nýtt. Að öllu óbreyttu mun það sama verða uppi á teningnum í Vestmannaeyjum nú um áramót. Þrándur Sigurjón Ólafsson, verkfræðingur í orkumiðlun hjá HS Orku, vekur athygli á þessari stöðu í grein sem birtist á visir.is í dag.
Hringtenging hefur öfug áhrif
Þann 6. nóvember síðastliðinn tilkynnti Landsnet um hringtengingu flutningskerfis raforku á Norðausturlandi. Með henni kemur ný tenging frá Kópaskeri og að Vopnafirði. Að óbreyttu mun þessi betrumbót í flutningskerfinu þó hafa öfug áhrif á orkuskipti. Þar sem fiskimjölsverksmiðja Brims á Vopnafirði verður hluti af hring, og nýtur þá ekki skerðanlegs flutnings sem endanotandi, mun hún greiða mun hærra verð fyrir flutning. Það leiðir til þess að verksmiðjan velur olíu umfram raforku. Á sama hátt verður ástæðulaust að setja upp rafskautakatla á Þórshöfn, til að stuðla að orkuskiptum, því rekstrarkostnaður á raforku verður alltaf hærri en á olíu við óbreytta gjaldskrá.
Þörf á breyttri nálgun í gjaldskrá
Hjá Landsneti er farið eftir því hvort N-1 skilyrði sé uppfyllt þegar skerðanlegur flutningur er annars vegar. Þetta þýðir að séu fleiri en ein tenging á flutningskerfi til afhendingarstaðar er aðeins boðið upp á forgangsorkuflutning.
Í grein sinni bendir Þrándur Sigurjón meðal annars á nauðsyn þess að þessari aðferðarfræði Landsnets sé breytt og gjaldskráin endurskoðuð með tilliti til þeirrar stöðu sem hér er vakin athygli á. Fiskimjölsverksmiðjur eru í reynd „varaafl“ í raforkukerfi Íslands og brýnt er orðið að hægt sé að nýta þær sem slíkar.