Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Gýs í fimmta sinn í Sundhnúksgígum

Eldgos hófst í Sundhnúksgígaröðinni rétt fyrir klukkan eitt í dag. Þetta er fimmta eldgosið í gígaröðinni á fimm mánuðum og það stærsta til þessa. Starfsemi orkuversins í Svartsengi er órofin en allur viðbúnaður hefur verið virkjaður og neyðarstjórn er að störfum.

Eldgos

Hraunflæði ógnar stofnæðum HS Veitna sem liggja frá Svartsengi til Grindavíkur og hefur rafmagn verið tekið af háspennulínum í varúðarskyni. Eldgosið er á svipuðum slóðum og fyrri gos. Hraunrennsli er hratt og virðist enn sem komið er flæða í samræmi við hraunlíkön. Allt viðbragð hefur verið virkjað í framleiðslunni til að bregðast við því ef hraun flæðir á ný yfir lagnir.

Örfáar mínútur tók að rýma Svartsengi í morgun þegar fyrstu viðvaranir um yfirvofandi eldgos bárust um ellefuleytið. Um 50 manns voru við störf á svæðinu, bæði starfsfólk HS Orku og Ístaks, en framkvæmdir við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi standa yfir.

Borholuvöktun HS Orku gaf fyrstu merki um að þrýstingur væri kominn yfir viðmiðunarmörk kl. 11:42 og gaf frá sér a.m.k. tvær viðvaranir til viðbótar áður en gaus kl. 12:47. Mælingarnar sýna hærri hröðun á þrýstingsaukningu og meiri þrýsting en í fyrri gosum.