Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Grettistaki lyft í kjölfar eldgoss

Aðgerðir gærdagsins skiluðu því að heitt vatn komst aftur á hús í vesturhluta Grindavíkur um miðnætti en byrjað var að hleypa rólega á lögnina um átta leytið í gærkvöldi.

Lagnir Brenna Malbik
Gamla heitavatnslögnin undir hraun.

Heitt vatn er aftur komið á hús í vesturhluta Grindavíkur en HS Orka leiddi umfangsmikla aðgerð í gær sem miðaði að því að koma heitu vatni á nýja stofnlögn frá Svartsengi að dreifikerfi HS Veitna í Grindavík. Sömu sögu er að segja af rafmagni til Grindavíkur en síðdegis í gær tókst sérfræðingum HS Orku ásamt HS Veitum að setja spennu á háspennustreng sem liggur frá Svartsengi til Grindavíkur. Strengurinn var tekinn út aðfararnótt sunnudags vegna jarðhræringa við Grindavík en hraun rann síðar yfir hluta þess svæðis þar sem hann liggur í jörð.

Jarðhræringar og eldsumbrot helgarinnar höfðu ekki bein áhrif á starfsemi orkuversins í Svartsengi. Allur rekstur er með eðlilegu sniði þótt framleiðslunni sé enn fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun líkt og verið hefur frá 10. nóvember á síðasta ári þegar fordæmalausar jarðhræringar riðu yfir Grindavík og nágrenni.

Heita vatnið í forgangi

Aðgerðir gærdagsins skiluðu því að heitt vatn komst aftur á hús í vesturhluta Grindavíkur um miðnætti en byrjað var að hleypa rólega á lögnina um átta leytið í gærkvöldi. Var það gert til að sjá hvort vatn tæki að sjóða í þeim hluta lagnarinnar sem liggur nú undir hrauni. Allt gekk að óskum og streymir vatn nú um lögnina í samræmi við eftirspurn. Framkvæmdir við nýja heitavatnslögn til Grindavíkur voru á lokametrunum þegar tók að gjósa á sunnudag en gamla lögnin laskaðist í jarðhræringum 2022. Ekki tókst að hylja lögnina áður en gosið hófst og stóð hún því óvarin gegn hraunrennslinu.

Ny Heitavatnslogn
Unnið að tengingum nýju heitavatnslagnarinnar.

Varaflstöð flutt til Grindavíkur

Erfitt er að meta ástand dreifikerfisins í Grindavík en ljóst er að austurhluti bæjarins er afar illa farinn eftir jarðhræringarnar auk þess sem þrjú íbúðarhús urðu hrauninu að bráð. Landsnet flutti eina af varaaflsvélum sínum til Grindavíkur í gær og er hún staðsett á hafnarsvæðinu. Verður hún tiltæk ef ekki tekst að koma hita í hús á svæðinu. Þetta er vandasöm aðgerð og óvíst hvort ástand dreifikerfisins er nægilega gott til að geta tekið við.

Umfangsmikið tjón og tafarlaust viðbragð

Ljóst er að mikið tjón hefur orðið á lögnum og strengjum sem liggja meðfram Grindavíkurvegi frá orkuveri HS Orku í Svartsengi að dreifiveitum HS Veitna í Grindavík. Hraun flæddi yfir lagnakerfið á breiðum kafla á þeim stað þar sem varnargarðarnir þvera Grindavíkurveg auk þess sem lagnir ofanjarðar skemmdust nokkuð þegar vinnu við gerð varnargarðanna var haldið áfram á sunnudag.
Sama dag og gosið hófst var hafist handa við mat á mögulegu tjóni og var viðbragðshópur HS Orku, HS Veitna, Landsnets og Almannavarna settur á laggirnar til að undirbúa uppbyggingu kerfisins. Verkfræðingur frá verkfræðistofunni Eflu mun stýra verkefninu fyrir hönd Almannavarna en það miðar að því ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að koma öllum straumum aftur á í Grindavík. 

Varnargarðarnir stóðust prófið

Þrjú íbúðarhús í Grindavík gjöreyðilögðust í eldsumbrotunum en hraunsprungan opnaðist innan varnargarðanna og því engar varnir fyrir hendi þar. Atburðir gærdagsins sýna glögglega að varnargarðarnir við Grindavík beindu mestum hraunstrauminum frá íbúabyggð og komu þannig í veg fyrir að umtalsvert meira tjón yrði á fasteignum í bænum en raunin varð. Óhætt er að segja að garðarnir hafi staðist þessa fyrstu áraun og gefur það væntingar um að aðrir varnargarðar muni geri slíkt hið sama ef á reynir.