Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Fjórða eldgosið í Sundhnúksgígum – rekstur orkuvera í eðlilegum skorðum

Allur rekstur HS Orku er með eðlilegum hætti og lagnir frá orkuverinu í Svartsengi eru heilar en eldgos, sem hófst í Sundhnúksgígaröðinni laust eftir kl. 20 í gærkvöldi, virðist í rénun.

Eldgos 160324
Kort Veðurstofunnar sýnir legu sprungunnar sem opnaðist í nótt. Dökkfjólublár litur sýnir hraun sem rann í janúar en ljósari liturinn sýnir hraunið sem rann í febrúar.

Allur rekstur HS Orku er með eðlilegum hætti og lagnir frá orkuverinu í Svartsengi eru heilar en eldgos, sem hófst í Sundhnúksgígaröðinni laust eftir kl. 20 í gærkvöldi, virðist í rénun. Upptök eldgossins voru milli Hagafells og Stóra-Skógfells, á svipuðum stað og eldgosið sem hófst þann 8. febrúar. Neyðarstjórn er að störfum og fylgist grannt með framvindunni.

Hraunflæði í svipuðum farvegi og í febrúargosinu

Hraun flæddi bæði í átt til Grindavíkur og í átt að innviðum sem liggja frá orkuverinu í Svartsengi. Hrauntungan úr norðurhluta sprungunnar rann yfir Grindavíkurveg í nótt og um tíma stefndi í að hraunrennslið næði að háspennumöstrum Svartsengislínu og Njarðvíkuræðinni, sem fæðir Reykjanesbæ með heitu vatni frá Svartsengi. Hraunjaðarinn virðist nú vera að storkna en hann er aðeins í um 200 metra fjarlægð frá möstrum og lögnum. Varnargarðarnir við Grindavík sönnuðu gildi sitt í nótt og í morgun en þeir hafa leitt hraunrennslið í þá farvegi sem til stóð.

Búið var að fergja þann hluta Njarðvíkuræðarinnar þar sem talin er mest hætta á hraunrennsli en hraunið í gær og nótt rann í svipuðum farvegi og í febrúargosinu þegar hraun rann yfir Njarðvíkuræðina og olli verulegum skemmdum á henni. Samhliða fergingu á lögnum hefur verið unnið að mikilvægum vörnum  á háspennumöstrum við Svartsengi undanfarnar vikur undir stjórn almannavarna.

Gripið til aðgerða í varúðarskyni

Í gærkvöldi, þegar stefndi í að hraun næði á ný að innviðunum sem liggja frá Svartsengi, fluttu vaktmenn HS Orku alla eiginnotkun orkuversins í Svartsengi yfir í Reykjanesvirkjun. Eiginnotkun er sú raforka sem notuð er fyrir dælur, þrýstiloft og stjórnbúnað í virkjuninni. Þetta var gert í þeim tilgangi að tryggja stöðugleika í starfseminni í Svartsengi ef til þess kæmi að Svartsengislína yrði fyrir tjóni af völdum hraunflæðis. Aðgerðin tryggði að virkjunin í Svartsengi héldi rafmagni á öllum mikilvægum búnaði, ásamt fullri heitavatnsframleiðslu og afhendingu á heitu vatni, jafnvel þótt skammhlaup yrði vegna mögulegs útsláttar á Svartsengislínu.

Á meðan á tilfærslunni stóð var nauðsynlegt að taka rafmagn af Grindavík í skamma stund. Að færslu lokinni var hægt að afhenda rafmagn á ný til heimila og smærri notenda í Grindavík þar sem díselvélar voru einnig keyrðar í Svartsengi til að framleiða rafmagn. Ekki var þó nægt afl til staðar til að afhenda til stærri notenda í Grindavík. Nú hefur eiginnotkunin verið færð til fyrra horfs, díselvélarnar hafa verið keyrðar niður og ættu öll fyrirtæki nú að geta tekið fullt álag.

Neyðarstjórn virkjuð á miðri árshátíð

Neyðarstjórn HS Orku er að störfum og vandlega er fylgst með framvindu gossins líkt og í fyrri eldsumbrotum og jarðhræringum. Starfsmenn orkuveranna eru í viðbragðsstöðu og haga rekstri veranna í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Stærstur hluti starfsfólks HS Orku og maka þeirra var samankominn á árshátíð fyrirtækisins á Grand hóteli í Reykjavík í gærkvöldi. Þegar ljóst var að eldgos væri hafið urðu allnokkrir frá að hverfa til að sinna störfum í neyðarstjórn en flestir gátu þó haldið gleðskapnum áfram undir stanslausu stuði Páls Óskars.