Matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda HS Orku við jarðhitanýtingu í Eldvörpum á Reykjanesskaga er nú til kynningar í Skipulagsgátt. Eldvörp eru í nýtingarflokki rammaáætlunar og er svæðið talið vænlegt til nýtingar. Unnið er að blástursmælingum á eldri borholu á svæðinu og lofa mælingarnar góðu um nýtingarmöguleika hennar. Fyrirhugað er að leggja safnæðar frá Eldvörpum og verður orkan nýtt í nýstækkaðri Svartsengisvirkjun.
Tenging milli svæða
Eldvörp hafa verið til skoðunar hjá HS Orku í lengri tíma. Á svæðinu er til staðar borhola sem boruð var árið 1983 (EV-02) og hefur hún verið nýtt til mælinga og eftirlits. Einnig er til staðar nýr borteigur sem var útbúinn árið 2019. Rannsóknir undanfarin ár hafa sýnt tengsl á milli jarðhitakerfanna í Eldvörpum, Svartsengi og núverandi niðurdælingarsvæðis.
Á síðasta ári hófst uppfærsla á sameiginlegu forðafræðilíkani fyrir svæðið þar sem markmiðið er að fá skýrari mynd af því hvernig vinnsla í Eldvörpum hefði áhrif á Svartsengi og öfugt.
Safnæðar í stað virkjunar
Framkvæmdirnar sem fyrirhugaðar eru nú fela í sér að nýta eldri rannsóknarholur og bora þar sem þegar eru fyrir borplön við Eldvörp og Skipastígshraun. Einnig stendur til að bora eina til tvær niðurdælingarholur frá nýjum borteig á nýju svæði sunnar. Ekki er áætlað að reisa virkjun í Eldvörpum en þess í stað verða lagðar safnæðar frá vinnsluholunum að Svartsengisvirkjun.
Mætir vaxandi orkueftirspurn
Með nýtingu jarðhita á svæðinu verður hægt að mæta hluta þeirrar auknu eftirspurnar eftir rafmagni og heitu vatni sem hefur farið vaxandi á landinu öllu, einkum á Suðurnesjunum, þar sem eftirspurn er komin að þolmörkum.
Með framkvæmdunum er stefnt að því að auka vinnslugetu Svartsengisvirkjunar um allt að 25 MW, úr 85 í 110 MW. Áætlað er að jarðhitanýtingin og nýtt niðurdælingarsvæði verði komið í rekstur um mitt ár 2029.