Stofnuð hafa verið tvö ný svið innan HS Orku, annars vegar svið sjálfbærni og aðfangastýringar og hins vegar svið auðlinda. Tóku breytingarnar gildi um nýliðin áramót. Ennfremur tekur nýr framkvæmdastjóri við sviði þróunar og framkvæmda í mars næstkomandi.
Finnur Sveinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja sviðs sjálfbærni og aðfangastýringar en hann hefur síðastliðin fjögur ár stýrt sjálfbærnideild fyrirtækisins auk þess að annast viðskiptastjórn nýframkvæmda. Hið nýja svið undirstrikar vaxandi mikilvægi sjálfbærni hjá HS Orku.
Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri auðlinda. Ásbjörn Blöndal, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra þróunar- og auðlindasviðs um árabil, lætur af störfum síðar á árinu sökum aldurs. Lilja hefur leitt deild auðlindastýringar HS Orku síðastliðin tvö ár.
Þann 1. mars tekur Yngvi Guðmundsson við sem framkvæmdastjóri þróunar og framkvæmda af Sunnu Björg Helgadóttur, sem ráðin hefur verið forstjóri Rio Tinto (ISAL) á Íslandi. Yngvi er yfirverkfræðingur HS Orku en hann hefur gegnt því starfi frá árinu 2017 og gjörþekkir því alla starfsemi fyrirtækisins.
Finnur Sveinsson
Finnur Sveinsson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með M.Sc. gráðu í umhverfisfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð. Hann er framkvæmdarstjóri sjálfbærni og aðfangastýringar og gekk til liðs við HS Orku í árslok 2020 sem viðskiptastjóri og deildarstjóri sjálfbærni. Finnur bjó í Svíþjóð í 12 ár og starfaði þá sem ráðgjafi á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Áður en hann hóf störf hjá HS Orku var hann ráðgjafi í viðskiptastjórnun og umhverfismálum hjá Alcoa Fjarðaál og sérfræðingur hjá Landsbankanum í samfélagsábyrgð. Finnur hefur komið að fjölmörgum byggingarverkefnum og verkefnum á sviði sjálfbærni á Íslandi og nefna má að hann byggði fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi. Hann var varaformaður og síðar formaður Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, frá stofnun hennar 2011 til ársins 2017 og frá 2019 hefur hann gegnt formennsku í stjórn vottunarstofunnar Tún.
Lilja Magnúsdóttir
Lilja Magnúsdóttir er með doktorsgráðu í orkuverkfræði frá Stanford Háskóla í Bandaríkjunum og mastersgráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og er formaður Jarðhitafélags Íslands. Lilja tók við stöðu framkvæmdastjóra auðlinda í stýringu HS Orku í ársbyrjun 2026 en hún gekk til liðs við fyrirtækið árið 2020 og leiddi deild auðlindastýringar árin 2023-2025. Hún hefur víðtæka reynslu af jarðhita og forðafræði, bæði hér á landi og erlendis. Áður starfaði hún sem yfirverkfræðingur í hönnun og þróun hjá sólarrafhlöðudeild Tesla í Kaliforníu þar sem hönnun hennar leiddi til einkaleyfis.
Yngvi Guðmundsson
Yngvi Guðmundsson er með M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Stellenbosch háskólanum í Suður-Afríku og B.Sc. frá vélaverkfræðideild frá Háskóla Íslands. Yngvi tekur við stöðu framkvæmdastjóra þróunar og framkvæmda HS Orku 1. mars 2026 en hann réðst til starfa sem yfirverkfræðingur hjá fyrirtækinu árið 2017. Sem framkvæmdastjóri mun hann bera ábyrgð á þróunar-og fjárfestingaverkefnum fyrirtækisins, þar með talið nýframkvæmdum. Áður en Yngvi gekk til liðs við HS Orku var hann verkefnastjóri jarðhitaverkefna hjá Verkís á árunum 2012-2017 og þar á undan verkefnastjóri hjá ÍAV við byggingu Hörpunnar árin 2007-2010. Yngvi er stundakennari við jarðhitaskóla GRÓ (jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna) auk þess sem hann sinnti stundakennslu við Háskóla Íslands um fjögurra ára skeið.