Eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt. Eldgosið hefur engin áhrif haft á starfsemi orkuversins í Svartsengi og er rekstur eðlilegur. Þetta er níunda eldgosið á gígaröðinni en fyrst gaus þar í desember 2023.
Vaktmenn, sem að jafnaði dvelja í Svartsengi að næturlagi, fluttu sig yfir í Reykjanesvirkjun skömmu eftir miðnætti þegar viðvörunarlúðrar Almannavarna fóru í gang. Þaðan er unnt að fjarstýra orkuverinu í Svartsengi. Um svipað leyti var neyðarstjórn fyrirtækisins virkjuð og fylgist hún grannt með framvindu eldgossins.
Fylgst með loftgæðum
Lögreglan á Suðurnesjum heimilaði starfsfólki og verktökum, sem vinna að stækkun og endurbótum á orkuverinu í Svartsengi, að fara inn á svæðið í upphafi vinnudags og urðu því engar tafir af völdum gossins í morgun. Töluverða gasmengun leggur frá gosstöðvunum en vindáttin veldur því að hún raskar ekki starfsemi í Svartsengi sem stendur. Grannt er fylgst með loftgæðum á svæðinu.
Borholur vara enn og aftur við
Viðvörunarkerfi, sem mælir borholuþrýsting í Svartsengi og Veðurstofan nýtir í mati á yfirvofandi eldgosum, sendi frá sér viðvörun um hálf tvöleytið í nótt - rúmum tveimur klukkutímum áður en eldgos hófst. Kerfið var hannað og þróað af teymi vísindamanna í auðlindastýringu HS Orku í kjölfar fyrsta eldgossins á gígaröðinni og hefur það gefið vísbendingar um yfirvofandi gos í öll skipti sem eldsumbrot hafa orðið frá þeim tíma.
