Borun fyrstu djúpu rannsóknarborholunnar við Sveifluháls í Krýsuvík hófst vorið 2025 en borunin er hluti af jarðhitarannsóknum HS Orku á Krýsuvíkursvæðinu. Svæðið hefur hingað til verið metið hátt sem jarðhitasvæði til nýtingar fyrir orkuvinnslu. Vonir standa til þess að framleiða þar heitt vatn fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið og rafmagn inn á landskerfið. Skipulags- og leyfismál eru unnin í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og þar til bærar stofnanir og er umhverfismat fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir í undirbúningi. Tímalína verkefnisins í heild spannar hátt í áratug. Ef rannsóknir skila tilætluðum árangri er stefnt að því að jarðvarmaver rísi við Sveifluháls. Ekki er tímabært að segja nákvæmlega til um hvar hin ýmsu mannvirki jarðvarmavinnslunnar verða staðsett. Niðurstöðurnar úr rannsóknarborununum ráða þar miklu en einnig umhverfismat framkvæmda og allt samspil við náttúru Krýsuvíkur og aðra atvinnustarfsemi á svæðinu.