Úthlutað úr Rannsóknarsjóði HS Orku í fyrsta sinn - HS Orka Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Úthlutað úr Rannsóknarsjóði HS Orku í fyrsta sinn

Alls hlutu fjögur spennandi verkefni styrk í fyrstu úthlutun Rannsóknarsjóðs HS Orku sem fram fór nýverið en sjóðurinn var settur á laggirnar á síðasta ári. Styrkupphæðin að þessu sinni er samtals 11 milljónir króna. Viðtökur við sjóðnum eru vonum framar en alls bárust 68 umsóknir í þessa fyrstu úthlutun.

Celine Veðurstofa Íslands 2 1 Jpg Heil
Celine Mandon, sérfræðingur í eldfjallagasi á Veðurstofu Íslands og einn af fjórum fyrstu styrkþegum úr Rannsóknarsjóði HS Orku, er hér við rannsóknir sínar í Svartsengi sem miða að því að meta losun koltvísýrings frá jarðhitakerfunum á virka gosbeltinu á Reykjanesskaga.

Þekking, nýsköpun og framfarir

Sjóðurinn veitir styrki til afmarkaðra rannsóknarverkefna sem hafa skírskotun til starfsemi fyrirtækisins og/eða til sjálfbærniáherslna HS Orku. Markmið sjóðsins er að efla þekkingu innan fyrirtækisins og stuðla að framförum og nýsköpun í starfseminni. 


Eftirfarandi fjögur rannsóknarverkefni hlutu styrk úr sjóðnum í ár:

•    Vöktun á útbreiðslu gufupúða á háhitasvæðum - Egill Árni Guðnason, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR
•    LjósSveifla: Jarðhitaleit undir Sveifluhálsi með ljósleiðaratækni - Vala Hjörleifsdóttir, dósent við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
•    Lykilþættir í þróun og árangri hringrásariðngarða (e. Finding key factors contributing to the successful development of eco-industrial-parks like the Resource Park of HS Orka) - Carolina Araque Gomez, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. 
•    Mat á losun koltvísýrings frá jarðhitakerfunum á virka gosbeltinu á Reykjanesskaga (e. Quantifying CO2 emissions from geothermal systems in the Reykjanes active volcanic region) - Celine Mandon, sérfræðingur í eldfjallagasi hjá Veðurstofu Íslands.


Úthlutað næst að vori

Samkvæmt samþykktum Rannsóknarsjóðsins er styrkjum úr sjóðnum úthlutað einu sinni á ári. Næsta úthlutun fer fram á vormánuðum 2026 og verður opið fyrir umsóknir í gegnum umsóknarsíðu sjóðsins frá 15. janúar til 15. febrúar næstkomandi.