Borun fyrstu rannsóknarborholunnar á jarðvarmasvæðinu við Sveifluháls í Krýsuvík er nú lokið og lofa fyrstu mælingar góðu. Jarðboranir hófu borun með rafknúna jarðbornum Óðni um miðjan apríl
síðastliðinn fyrir HS Orku.
Vísbendingar eru um góðan jarðhita en of snemmt er að segja til um nýtingarmöguleika svæðisins. Bora þarf fleiri rannsóknarholur og allt að ár getur liðið frá hverri borun áður en hægt er að slá því föstu að viðkomandi borhola henti til vinnslu.
Í þessari fyrstu rannsóknarborun var eilítið grynnri hola boruð en upphaflega var áætlað. Farið var niður á um 2.600 metra mælidýpi sem er í reynd lengd holunnar en sjálft dýpið er um 2.200 metrar. Að mestu var stefnuborað en þeirri tækni er beitt við jarðhitanýtingu svo að lágmarka megi umhverfisáhrif af borunum. Með stefnuborun er unnt að nálgast heit og vatnsrík svæði án þess að raska þurfi yfirborðinu beint ofan við þau auk þess sem rannsaka má stærri svæði út frá sama borteig. Þannig er umhverfisspori framkvæmda haldið í lágmarki.
Rannsóknarborunum haldið áfram
Niðurstöður fyrstu borunarinnar benda til mikils jarðhita á svæðinu þótt of snemmt sé að fullyrða um vinnslumöguleika hans. Þessar fyrstu niðurstöður auka hins vegar vonir um að svæðið geti nýst til vinnslu á jarðvarma í náinni framtíð. Nýja holan þarf nú að hitna og verður hún síðan látin blása eins og kallað er, til þess að hægt verði að meta berghita, þrýsting og magn jarðhitavökva fyrir frekari ákvörðunartöku.
Fyrsta borholan kallast KR-10 en næsta borhola, KR-11, er þegar í undirbúningi. Hún er fyrirhuguð á svæðinu rétt norður af Bleikhól og er nú unnið að skipulagsbreytingum fyrir borholuna í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Borinn tekinn niður og gengið frá borteignum
Nú er unnið að því að loka holunni, verið er að taka jarðborinn niður og gengið verður vel frá svæðinu eftir borunina, þó þannig að mögulegt sé að nýta sama teig að nýju til frekari borana. Nánari greiningar og niðurstöður úr mælingum eru væntanlegar á næstu mánuðum í samstarfi við ISOR.
Náið samstarf við Hafnarfjarðarbæ
Rannsóknirnar nú byggjast á samningi sem Hafnarfjarðarbær og HS Orka undirrituðu í júní í fyrra um heimild til rannsókna, landnota, lóðarleigu og nýtingar auðlindaréttinda í tengslum við mögulega nýtingu auðlinda í Krýsuvík. Samningurinn miðar að því að kanna möguleika þess að virkja jarðvarma og vinna grunnvatn í landi Krýsuvíkur á hagkvæman og umhverfisvænan hátt, samhliða uppbyggingu auðlindagarðs þar sem frekari nýting vinnslustrauma getur farið fram.
Mikilvæg aukning á orkuöryggi
Krýsuvíkursvæðið hefur hingað til verið metið hátt sem jarðhitasvæði til nýtingar fyrir orkuvinnslu. Vonir standa til þess að framleiða þar meðal annars heitt vatn fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið ásamt rafmagni inn á landskerfið.
Með auðlindanýtingu í Krýsuvík eykst afhendingaröryggi á heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins, en nú kemur bróðurparturinn af heitu vatni þangað úr einni átt frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun á Hengilsvæðinu.
Í kjölfar fárviðris, sem geysaði á landinu í desember 2019, vann átakshópur stjórnvalda að aðgerðalýsingu þar sem Krýsuvík var skilgreind sem sérstaklega mikilvægt svæði vegna öryggis hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Einn liður í áætlun stjórnvalda til að tryggja orkuöryggi til framtíðar kveður á um að gerð verði könnun á sameiginlegri varmastöð í Krýsuvík fyrir Suðurnes og höfuðborgarsvæðið undir formerkjum almannahagsmuna, þjóðaröryggis og forgangs varmavinnslu í þágu hitaveitu.
