Ísland leiðarljós í jarðhitavæðingu Evrópu - HS Orka Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Ísland leiðarljós í jarðhitavæðingu Evrópu

Í liðinni viku sóttu fulltrúar HS Orku ásamt fulltrúum annarra íslenskra orkufyrirtækja viðburðinn Our Climate Future (OCF) sem fram fór í Brussel. Fjöldi íslenskra og erlendra sérfræðinga tóku þátt í viðburðinum þar sem íslensk þekking í jarðvarma var í forgrunni.

M7a7r9la
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, í pallborði á OCF viðburðinum í Brussel í liðinni viku.

HS Orka hefur frá upphafi verið einn af bakhjörlum OCF en Íslandsstofa og Grænvangur standa árlega fyrir viðburðinum, sem haldinn er í Evrópu og Norður Ameríku á víxl í samstarfi við íslensk sendiráð í hverju landi fyrir sig.

Yfirskrift viðburðarins að þessu sinni var„Jarðvarmi sem drifkraftur fyrir samkeppnishæfni, kolefnishlutleysi og orkuöryggi Evrópu“ (e. Geothermal Energy as a Driver for European Competitiveness, Decarbonisation and Energy Security).

Í ljósi staðsetningarinnar, þ.e. í hjarta Evrópusambandsins, lagði HS Orka töluverða áherslu á að taka virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd viðburðarins. Af hálfu fyrirtækisins sóttu viðburðinn Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, Finnur Sveinsson, deildarstjóri sjálfbærni og Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og Auðlindagarðsins,

Skýr markmið og miklir hagsmunir

Jón Ásgeirsson hefur sinnt OCF fyrir hönd HS Orku undanfarin ár og hann segir að afar vel hafi tekist til með viðburðinn í ár: „Tilgangur fundarins var sá að vekja athygli á því að Ísland ætti að vera leiðarljós álfunnar og sérstaklega Evrópusambandsins í jarðvarmanýtingu, jafnt í lághita sem háhita, nú þegar Evrópa er fyrir alvöru að hefja vegferð sína að jarðhitavæðingu víðar en orðið er. Þetta skiptir máli því eðli jarðvarmans er ekki vel þekkt erlendis – stundum er hann litinn svipuðum augum og betur þekktar greinar sem vinna auðlindir neðanjarðar eins og olíuvinnsla eða námavinnsla. Því er hætta á að hvatakerfi og regluverk sem sett eru í góðri trú henti illa eða rekist á við eðli jarðvarma þannig að þau virka ekki eins og til er ætlast.”

Brýnt að ná eyrum áhrifafólks

Jón telur að á vettvangi sem þessum felist miklir hagsmunir fyrir innlendan orkuframleiðanda eins og HS Orku: „Augljóst er til dæmis mikilvægi þess að regluverk sem Ísland tekur upp, sem hluta af evrópska efnahagssvæðinu, sé skilvirkt og henti jarðvarma. Einnig er Ísland mjög háð erlendum viðskiptum og því ákaflega mikilvægt að afurðir sem nýta innlenda orkugjafa séu óumdeilanlega framleiddar með sjálfbærum og ábyrgum hætti og nái sem hæsta verði á erlendum mörkuðum.

Við stöndum nú þegar frammi fyrir reglugerðaflækjum sem gætu sett jarðvarma á grátt svæði og því er mikilvægt að ná eyrum áhrifafólks og leggja fram tillögur að leiðum til að leysa úr þeim flækjum.“

Samhljómur og góð saga

Jón undirstrikar mikilvægi þess að íslenski jarðvarmageirinn hafi komið samstíga til Brussel: „Við lögðum töluvert á okkur innan Samorku til að stilla saman skilaboð geirans og það var sérstaklega ánægjulegt hvernig öllum íslensku fulltrúunum tókst að tala einum rómi á viðburðinum. Það skiptir verulegu máli í svona hagsmunagæslu og er leyfilegt innan þeirra marka sem samkeppnislög setja. Mikilvægt er að gæta að þeim því sum fyrirtækin sem komu að fundinum eru og eiga að vera í harðri samkeppni hvert við annað á mörkuðum. Mikilvægur þáttur í þessum góða árangri var sá að Samorka hefur ráðið starfsmann í Brussel, Svein Helgason, og það skilaði sér vel í undirbúningnum.

Við höfum líka góða sögu að segja. Hitaveituvæðingunni var lýst og sagt frá því hvað virkaði vel í fjármögnun og lagasetningu. Við lögðum áherslu á að jarðvarmi getur skilað fjölbreyttum ábata ef tækifæri til fjölnýtingar eru nýtt vel. Auk þess bentum við á að jarðvarmi er örugg orka sem er í eðli sínu dreifð og getur því verið óháð miðlægum kerfum. Það skiptir miklu máli eins og heimsmálin eru að þróast núna og ytri ógnir blasa við”, bætir Jón við.

Jarðvarmi mögulegur hornsteinn

Heyra mátti að erlendum sérfræðingum í „lobbíisma“ hefði þótti  viðburðurinn í heild afar vel heppnaður. Vel tókst að ná eyrum mikilvægra aðila, jafnt innan stjórnkerfis Evrópusambandsins sem og annarra sem hagsmuni kunna að hafa í málaflokknum. Á vef Íslandsstofu kemur fram að rúmlega 150 sérfræðingar, stjórnendur og stefnumótunaraðilar frá ýmsum löndum hafi sótt viðburðinn.

Á vefnum er vitnað í ávarp Dans Jørgensen, framkvæmdastjóra orku- og húsnæðismála í framkvæmdastjórn ESB, en hann sagði jarðvarma vannýttan orkukost í Evrópu sem gæti orðið hornsteinn þegar kemur að framboði á hreinni orku í álfunni. 

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði einnig fundinn og sagði að hvort sem þjóðir stæðu frammi fyrir ógnum vegna náttúruvár eða ófriðar, væri alltaf nauðsynlegt að tryggja orkuöryggi með stöðugum, staðbundnum og endurnýjanlegum orkukostum eins og jarðvarma.

7O3rpana
Jóhann Páll Jóhannsson, orku, umhverfis- og loftslagsráðherra, flutti ávarp.
202510 Iceland Geo 151
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, í pallborði.
Md8riydg
Finnur Sveinsson, deildarstjóri sjálfbærni, í pallborði.