HS Orka aðalstyrktaraðili Iceland Geothermal Conferance 2027 - HS Orka Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

HS Orka aðalstyrktaraðili Iceland Geothermal Conferance 2027

Undirbúningur er hafinn að sjöttu alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference (IGC2027) sem haldin verður í Hörpu dagana 25.–27. maí 2027. HS Orka verður Platinum Partner og þar með aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar.

B93A5369
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, og Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuklasans, handsala styrktarsamninginn vegna IGC í Svartsengi.

IGC hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem einn af mikilvægustu viðburðum heims fyrir fræðslu, nýsköpun og viðskipti á sviði jarðvarma og tengdrar starfsemi. Íslenski Orkuklasinn stendur að ráðstefnunni en hún var fyrst haldin árið 2010.

Markmiðið að efla alþjóðlegt samstarf og áhuga á þróun jarðvarma

Styrktarsamningur um Platinum Partner var undirritaður í Svartsengi í liðinni viku af Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku, og Rósbjörgu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuklasans. Með samningnum leggur HS Orka Orkuklasanum enn frekar lið við að efla alþjóðlegt samstarf og áhuga á þróun jarðvarma sem hluta af lausnum í loftslagsmálum og sjálfbærri orkuþróun framtíðarinnar.

Á vefsíðu Orkuklasans segir: „Jarðvarmi gegnir lykilhlutverki í sjálfbærri orkuframleiðslu og loftslagsmálum framtíðarinnar. Ísland hefur með reynslu sinni sýnt hvernig nýting jarðvarma getur skapað hreina orku, öruggt hitakerfi, matvælaframleiðslu og ný tækifæri í iðnaði. Þannig hafa Íslendingar lagt af mörkum til samfélagslegrar velferðar og hnattrænnar sjálfbærni.

Iceland Geothermal Conferance er eitt af hryggjarstykkjum í starfsemi Orkuklasans. Meginmarkmiðið með ráðstefnunni er að efla þekkingu og skilning, skapa viðskipti og tækifæri á fjölbreyttum sviðum jarðvarma og nýtingar hans, og varpa ljósi á þau margvíslegu tækifæri sem jarðvarminn býður upp á – fyrir samfélög, atvinnulíf og umhverfi.“

Lilja leiðir fagnefnd IGC

Lilja Magnúsdóttir, deildarstjóri auðlindastýringar HS Orku, hefur tekið að sér formennsku í fagnefnd ráðstefnunnar 2027 en hún er jafnframt formaður Jarðhitafélags Íslands. Aðrir í fagnefndinni eru Alma Stefánsdóttir, Anna Björg Guðjónsdóttir, Kristín Steinunnardóttir, Rósbjörg Jónsdóttir, Steinunn Hauksdóttir, Vala Hjörleifsdóttir og Þorleikur Jóhannesson.

Mikilvægur samstarfsvettvangur

Orkuklasinn er þverfaglegur, fyrirtækjadrifinn samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana, stjórnvalda jafnt sem vísindasamfélagsins, sem starfa í og með íslenska orkugeiranum. Aðildarfélagar koma úr allri virðiskeðju orkutengdrar starfsemi. Megintilgangur Orkuklasans er að efla samkeppnishæfni félagsmanna og samfélagsins í heild með markvissum aðgerðum sem stuðla að nýsköpun og auka verðmætasköpun tengda endurnýjanlegum orkugjöfum.

Á vefsíðu IGC ráðstefnunnar má finna ítarlegari upplýsingar sem verða uppfærðar eftir því sem nær dregur ráðstefnunni og efnistök verða skýrari.