Héldu ljósum Suðurnesja logandi í eyjakeyrslu - HS Orka Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Héldu ljósum Suðurnesja logandi í eyjakeyrslu

Undanfarin misseri hefur Landsnet staðið fyrir umfangsmiklum breytingum og betrumbótum á flutningskerfi sínu á Suðurnesjum, bæði vegna Suðurnesjalínu 1 og til undirbúnings Suðurnesjalínu 2. Í þrígang á síðustu vikum hafa breytingarnar kallað á eyjakeyrslu HS Orku á svæðinu, en eyjakeyrsla er mikil aðgerð og ekki sjálfgefið að hún gangi snuðrulaust.

Arnar Flókason
Arnar Flókason, umsjónarmaður raf- og stjórnbúnaðar HS Orku

Möguleikinn til eyjakeyrslu eykur raforkuöryggi Suðurnesja til mikilla muna en þegar svæðið er keyrt í svokallaðri eyju tekur HS Orka í raun yfir hlutverk Landsnets og flytur raforku til dreifiveitunnar sem kemur orkunni síðan til neytenda.

Arnar Flókason, sem hefur umsjón með öllum raf- og stjórnbúnaði HS Orku, segir að aðgerðirnar hafi tekist óaðfinnanlega þökk sé samstilltu átaki starfsmanna beggja fyrirtækja, HS Orku og Landsnets. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Suðurnesin eru keyrð sem eyja í raforkuflutningi en ætla má að á síðasta áratug hafi HS Orka skipulagt 20 slíkar eyjakeyrslur með góðum árangri.“

Bylting framundan í flutningskerfi Suðurnesja

Það var stór áfangi í eflingu raforkuöryggis á Suðurnesjum þegar framkvæmdir hófust við lagningu Suðurnesjalínu 2 fyrr á þessu ári. Í raun má tala um byltingu fyrir samfélagið á Suðurnesjum þar sem tíund þjóðarinnar býr, fyrirtækjaflóra er fjölbreytt og alþjóðaflugvöllur Íslands er staðsettur. Nýtt tengivirki hefur verið reist á Njarðvíkurheiði og ný háspennumöstur eru óðum að rísa, að mestu samhliða Suðurnesjalínu 1.

Allt gekk upp í eyjakeyrslunum

Það hefur verið í miklu að snúast fyrir Arnar og samstarfsfólk hans síðstu vikur. „Aðgerðir Landsnets síðustu vikur hafa einkum falist í því að standsetja nýtt tengivirki á Fitjum. Einnig þurfti að færa tengingar af upprunalegum tengistað og yfir á þann nýja. Stærsta verkefnið var að flytja tengipunkt Suðurnesjalínu og tengja Suðurnesjalínu 1 við nýjan tengistað á Fitjum þar sem dreifiveitan tekur við orkunni frá HS Orku.  Verið er að fasa út upprunalegum rofabúnaði á Fitjum og koma öllum tengingum yfir í nýjan rofabúnað.

Arnar segir að með þessari breytingu muni Suðurnesjalína 1 ekki lengur fara inn í hús sem loftlína, heldur niður í jörðu sem strengur og tengjast nýjum gas-einangruðum rofabúnaði (GIS) sem komið var fyrir í stækkuðu tengivirki á Fitjum.

Þriðja og síðusta eyjakeyrsla HS Orku í tengslum við breytingar Landsnets á Suðurnesjalínu 1 fór fram um miðjan október og þann dag stóð eyjakeyrslan yfir í sjö klukkustundir. „Á meðan héldu starfsmenn HS Orka öllu gangandi á Suðurnesjum eins og ekkert hefði í skorist – ljósin loguðu hjá íbúum, gagnaverin reiknuðu tölur sínar og fiskeldin gátu hugsað vel um fiskana sína“, segir Arnar og er að vonum ánægður með hvernig til tókst.

Að mörgu að hyggja í flókinni aðgerð

Að jafnaði framleiðir HS Orka mun meira rafmagn en notað er á Suðurnesjum og sú orka sem er umfram notkun á svæðinu fer inn á flutningskerfi Landsnets og nýtist í öðrum landshlutum. Arnar segir að þegar eyjakeyrsla fer fram þurfi að skerða framleiðsluna í báðum orkuverum HS Orku á Reykjanesi verulega og getur skerðingin numið allt að 60 MW:

„Þegar orkukerfi er rekið í eyju þarf að minnsta kosti ein vél að sjá um svokallaða tíðnireglun. Í þessum aðgerðum hefur vél 1 í Reykjanesvirkjun fengið það hlutverk. Á meðan á aðgerðinni stóð mátti sjá viðvörunarljós loga í stjórnstöð: “AREA ISOLATED OPERATION.” Með því er stjórnbúnaður virkjunar að gefa til kynna að hún sé ekki tengd við kerfi Landsnets.“

 

Rautt Ljós Area Isolated
Á meðan á eyjakeyrslunum stóð logaði viðvörunarljós í stjórnstöð: “AREA ISOLATED OPERATION.” Með því er stjórnbúnaður virkjunar að gefa til kynna að hún sé ekki tengd við kerfi Landsnets.

Stórar aðgerðir Landsnets áskorun

Vinna við breytingu Suðurnesjalínu 1 er ekki eina verkefnið sem hefur haft mikil áhrif á starfsemi HS Orku undanfarin misseri. Tengingu Reykjanesvirkjunar við kerfi Landsnets hefur til dæmis verið breytt, upplýsir Arnar. „Fyrir aðgerðirnar tengdist Reykjanesvirkjun við Rauðamel í gegnum Rauðamelslínu 1 og þaðan deildu Svartsengi og Reykjanesvirkjun einni háspennulínu, Fitjalínu 1 að Fitjum. Nú er staðan breytt. Reykjanesvirkjun tengist beint inn á Fitjar og deilir því ekki línu með Svartsengi. Við þessa breytingu hlaut háspennulínan einnig nýtt heiti og kallast nú Reykjaneslína 1.“

Til að hægt væri að framkvæma þetta stóra verkefni þurfti að taka rafmagnið af línunni í tvígang – í fyrra skiptið í þrjá sólarhringa og það seinna í átta klukkustundir. Þar sem þetta er eina lína Landsnets sem tengd er við Reykjanesvirkjun þurfti að stöðva alla framleiðslu þeirrar virkjunar á meðan og er það veruleg aðgerð að sögn Arnars:

„Það er áskorun að taka allar þrjár vélarnar niður á sama tíma en með góðu skipulagi og frábæru samstarfi allra hlutaðeigandi tókst aðgerðin vonum framar enda allar hendur svo sannarlega uppi á dekki.“