Að gefnu tilefni - HS Orka Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Að gefnu tilefni

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirstandandi jarðhitarannsókna HS Orku við Sveifluháls á Krýsuvíkursvæðinu. Þar koma fram rangfærslur sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Dsc2012

Fyrsta djúprannsóknarborunin við Sveifluháls fór fram í sumar og er nú beðið niðurstaðna úr henni. Rétt er að óhapp varð fyrr í sumar þegar skolvatn, sem nýtt er til að hreinsa holuna, leitaði upp úr fráveitufarvegi sínum. Áhrif þess á lífríki svæðisins verða engin því efni í skolvatninu eru skaðlaus náttúrunni samkvæmt mælingum.

Ekkert er hæft í því að skolvatn hafi runnið frá borteig í gegnum aðrennslislögn og þaðan í Kleifarvatn. Í samræmi við framkvæmdaleyfi var skolvatninu veitt um farveg í nærliggjandi túnum og þaðan í Vestarilæk áleiðis til hafs. Nokkuð set féll til þegar flæddi upp úr farveginum og er unnið að hreinsun í samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið.

Skolvatnið inniheldur uppleyst, óskaðleg og náttúruleg föst efni, aðallega náttúrulegan leir og fínasta hluta borsvarfsins, sem er mulið náttúrulegt berg úr holunni.
HS Orka hefur endurskoðað verkferla sína í ljósi þessa atviks til að tryggja að skolvatn haldist í fráveitufarvegum við frekari boranir á svæðinu. Unnið er að undirbúningi næstu rannsóknarholu á svæðinu í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.