Svartsengislína, háspennulína Landsnets sem liggur frá orkuverinu í Svartsengi að Suðurnesjalínu, var spennusett síðdegis í dag eftir að hún sló út af völdum hraunrennslis á fimmtudag.
Framleiðsla raforku er því hafin á nýjan leik í orkuverinu í Svartsengi en hún hefur legið niðri frá því að línan sló út. Landsnet reisti nýtt og hærra mastur innan varnargarðsins á mettíma og strengdi nýja línu hratt og vel.
Starfsmenn HS Orku í Svartsengi hefur staðið vaktina sleitulaust síðustu daga við að halda annarri framleiðslu óskertri samhliða því að tryggja rafmagn til Grindavíkur eftir að Svartsengislína fór út.
Það hefur verið nokkuð snúið úrlausnarefni við þessar óvenjulegu aðstæður að tryggja rafmagn til að stýra framleiðslu á heitu vatni í orkuverinu og dælingu á köldu vatni ásamt því að halda rafmagni á Grindavík. Samhliða þurfti að tryggja stöðugt flæði á heitu og köldu vatni í lögnum sem liggja að hluta undir nýju hrauni.
Allt gekk þetta þó upp í góðu samstarfi við HS Veitur og Landsnet og til þess voru m.a. nýttar dísilknúnar varaaflsvélar, bæði í Grindavík og í Svartsengi. Einnig var rafmagn flutt með háspennukapli frá Reykjanesvirkjun í Svartsengi og þaðan til Grindavíkur. Stilla þurfti allan framleiðslubúnað í orkuverinu af til að mæta áskorununum sem fylgdu útslætti Svartsengislínu.