Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

HS Orka kaupir Fjarðarárvirkjanir

HS Orka hf. hefur samið við Kjöl fjárfestingarfélag ehf. um kaup á félaginu Íslensk Orkuvirkjun Seyðisfirði ehf. Félagið á og rekur tvær vatnsaflsvirkjanir í Fjarðará í Seyðisfirði og er uppsett afl þeirra samtals 9.8 MW.

Fjardarvirkjun
Frá vinstri: Þorlákur Traustason, Tómas Már Sigurðsson og Guðmundur Ingi Jónsson.

HS Orka kaupir Fjarðarárvirkjanir

HS Orka hf. hefur samið við Kjöl fjárfestingarfélag ehf. um kaup á félaginu Íslensk Orkuvirkjun Seyðisfirði ehf. Félagið á og rekur tvær vatnsaflsvirkjanir í Fjarðará í Seyðisfirði og er uppsett afl þeirra samtals 9.8 MW. Kaupin tryggja HS Orku og viðskiptavinum fyrirtækisins á almennum markaði aðgang að raforku á álagstoppum. Afhending félagsins fór fram þann 31. ágúst 2023 og eru kaupin að stærstum hluta fjármögnuð með eiginfjárframlagi hluthafa HS Orku.

HS Orka þekkir rekstur og starfsumhverfi Fjarðarárvirkjana vel en fyrirtækið hefur keypt alla orku og stýrt framleiðslu frá virkjununum frá því að hún hófst árið 2009. Virkjanirnar í Fjarðará eru Bjólfsvirkjun og Gúlsvirkjun. Góð miðlunarlón eru í Heiðarvatni og Þverárlóni á Fjarðarheiði og miðlun úr þeim gerir HS Orku kleift að nýta framleiðslu virkjananna til að mæta álagstoppum almennra notenda að vetrarlagi. Framleiðsla virkjananna er fyrst og fremst hugsuð sem liður í orkusölu til almennra notenda.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir Fjarðarárvirkjanir falla einkar vel að rekstri og annarri raforkuframleiðslu fyrirtækisins: „Virkjanirnar gera okkur kleift að þjóna enn betur viðskiptavinum okkar á hinum almenna markaði. Við þekkjum þessar virkjanir vel og höfum átt afar farsælt samstarf við fyrri eigendur. Það er einnig fagnaðarefni að með kaupunum hefur HS Orka nú fært út kvíarnar í nýjan landshluta og er fyrirtækinu í mun að falla vel að samfélaginu fyrir austan.“

HS Orka er þriðji stærsti orkuframleiðandi landsins en fyrirtækið var stofnað árið 1974 og hefur frá upphafi verið leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Fyrirtækið er til helminga í eigu Jarðvarma slhf. (félags í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða) og sjóða í stýringu Ancala Partners LLP. HS Orka á og rekur jarðvarmavirkjanirnar Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, vatnsaflsvirkjun að Brú í Biskupstungum og nú Fjarðarárvirkjanir í Seyðisfirði.

Fjar1
Fjar2
Fjar3