Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

  • 75

    MWe

    Installed capacity

  • 648

    GWh

    Annual production

  • 190

    MWth

    Geothermal energy

Orkuverið í Svartsengi er fyrsta blandaða jarðvarmavirkjunin á Íslandi en þar er hvort tveggja framleidd raforka og heitt vatn. Jarðvarmavinnsla hófst árið 1976 og var orkuverið síðar byggt upp í sex áföngum á ríflega þremur áratugum. Framkvæmdir standa nú yfir við sjöunda áfangann sem felur bæði í sér aflaukningu og endurbætur á orkuverinu. Afkastageta orkuversins í Svartsengi er 66 MW í raforku og um 200 MW í varmaorku. 

Svartsengi dregur nafn sitt af áningarstað hestamanna til forna en það er svæðið austan núverandi Grindavíkurvegar gegnt orkuverinu. Sjálft orkuverið stendur á hrauni sem rann árið 1226 og kallast Illahraun. Sunnan orkuversins er Þorbjarnarfell og austan við það er Svartsengisfell, Selháls er þar á milli og norðan hans Baðsvellir.  

Boranir eftir gufu á Svartsengissvæðinu hófust um miðjan nóvember árið 1971 en í fyrsta áfanga voru boraðar þrjár holur og var sú dýpsta um 400 metrar. Þessar holur voru notaðar við heitavatnsframleiðslu í varmaskiptastöð sem var byggð árið 1976. Strax við virkjun þessara gufuhola fór skiljusjórinn að mynda affallslón sem lagði grunninn að Bláa lóninu. Vatni var hleypt á fyrstu húsin í Grindavík þann 6. nóvember 1976 og ári síðar náði hitaveitan til Njarðvíkur.  

Heita vatnið á Suðurnesjum er upprunalega ferskvatn. Ferskvatnið er afloftað, afgösun er framkvæmd á vatninu og það hitað með háþrýstigufu í varmaskiptum. Þannig er því dælt frá HS Orku til neytenda á Reykjanesi. 

Orkuverið í Svartsengi hefur verið byggt upp í sex áföngum.

1976 hófst vinnsla jarðvarma í Svartsengi. Raforkuframleiðsla hófst vorið 1978 þegar gangsettur var 1 MW hverfill til eigin nota í jarðvarmavinnslunni. Skömmu síðar var annar hverfill sömu stærðar tekinn í notkun.  
1980 var lokið við annan áfanga þar sem 6 MW hverfli var bætt við og hann gangsettur í árslok.  
1989 bættust þrír Ormat hverflar við sem framleiddu samtals 3,6 MW.  
1993 var fjórum Ormat hverflum bætt við sem framleiddu samtals 4,8 MW.  
1999 var 30 MW hverfill settur upp í orkuveri 5. Það tók samanlagt 21 ár að ná upp 45 MW rafmagnsframleiðslu í Svartsengi.  
2008 var sjötti áfanginn í Svartsengi tekinn í gagnið en hann fól í sér 30 MW stækkun og gengur undir heitinu orkuver 6. 
2023 hófust framkvæmdir við sjöunda áfanga orkuversins, orkuver 7, en verkefnið samanstendur af aflaukningu orkuversins um þriðjung ásamt verulegum endurbótum, sem einkum snúa að heitavatnsframleiðslu í verinu. Orkuver 7 mun leysa af hólmi orkuver 3 og 4. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér