Skóflustunga Brúarvirkjun


Sigurður Ingi Jóhannesson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók í gær skóflustungu við byggingu Brúarvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupastungum sem er 9,9 MWe rennslisvirkjun.

„Skóflustungan er stór áfangi en Brúarvirkjun er fyrsta vatnsaflsvirkjunin í eigu HS Orku. Virkjunin er rennslisvirkjun með litla inntakstjörn og niðurgrafna fallpípu sem gerir alla ásýnd í landslagi lítt áberandi. Vegna smæðar virkjunarinnar var ekki skýlaus krafa um að hún þyrfti að fara í umhverfismat en við töldum mikilvægt að fara þá leið engu að síður, til að vanda til verka og gæta allra hagsmuna“ segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku.

Jákvæð áhrif virkjunarinnar á Bláskógarbyggð eru talsverð en hún mun meðal annars styrkja afhendingaröryggi raforku í nágrannabyggðum, þar sem t.a.m. eru fjölmörg stór gróðurhús. Stofnkerfi raforku styrkist á stóru svæði með lagningu háspennustrengs frá jörðinni Brú til Reykholts og einnig munu virkjunarframkvæmdir skapa störf á svæðinu, bæði á byggingartíma sem og þegar rekstur hefst.

HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og framleiðir og selur rafmagn um allt land. Fullnýting og umhyggja fyrir umhverfinu hefur ætíð verið rauði þráðurinn í starfseminni og hefur meðal annars leitt af sér stofnun Auðlindagarðs á Reykjanesi, þar sem fyrirtæki hafa sprottið upp og nýtt hina ýmsu auðlindastrauma sem verða til við framleiðslu á rafmagni og heitu vatni.

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Mareirsson, forstjóri s: 855-9301