HS Orka með hagstæðasta boðið í örútboði Vegagerðarinnar


Ríkiskaup stóð fyrir örútboði á raforkunotkun Vegagerðarinnar í janúar mánuði síðastliðnum. Þeim fimm seljendum sem eru þátttakendur í rammasamningi ríkisins, sem tók gildi 1.júní 2016, var boðið að taka þátt.  Alls bárust fjögur tilboð, frá HS Orku, Orku náttúrunnar, Orkubúi Vestfjarða og Orkusölunni.  

Samanburður á áætluðum kostnaði Vegagerðarinnar við raforkukaup samkvæmt forsendum tilboða leiddi í ljós að tilboð HS Orku reyndist hagstæðast fyrir Vegagerðina.  


 „Þessi niðurstaða er mikið ánægjuefni fyrir okkur. Við leggjum mikla áherslu á að bjóða góða og persónulega þjónustu til okkar viðskiptavina á hagstæðum kjörum og þessi niðurstaða gefur til kynna að okkur sé að takast það. Það er erfitt árferði á raforkumarkaði og mikil ríkisumsvif gera samkeppnisumhverfið krefjandi fyrir HS Orku sem eina orkufyrirtækið sem er ekki í opinberri eigu. Við vonumst til þess að eiga gott og farsælt samstarf við Vegagerðina til lengri tíma“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku.