HS Orka hf. birtir árshlutareikning fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017


Stjórn HS Orku hf. samþykkti á fundi sínum í dag árshlutareikning fyrirtækisins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017. Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, IFRS og er í íslenskum krónum. Árshlutareikninginn má finna hér.

Helstu atriði árshlutareikningsins eru þessi:

Hagnaður tímabilsins nam 1.995 milljónum en á sama tímabili 2016 var afgangur af rekstri 1.278 milljónir. Rekstartekjur námu 3.722  milljónum (2016: 3.507 milljónir). Helsta skýring á hækkun rekstrartekna eru auknar tekjur af smásölumarkaði á rafmagni og auknar  tekjur af sölu til álframleiðslu sem rekja má til hækkunar álverðs. Styrking krónunnar hefur að vísu unnið á móti þeirri hækkun. Þá er nokkuð minni sala á heitu vatni aðallega vegna hlýinda á tímabilinu. Framleiðslukostnaður er hærri en á sama tímabili 2016 fyrst og fremst vegna aukinna orkukaupa og aukins viðhaldskostnaðar við gufulagnir á Reykjanesi.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir á tímabilinu um 1.744 m.kr. en voru jákvæðir um 874 m.kr. á sama tímabili 2016. Hækkun á virði afleiða (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) er meginorsök breytingarinnar, en þeir voru jákvæðir um 1.609 m.kr. á tímabilinu, en voru jákvæðir um 841 m.kr. 2016. Áhrif gengisbreytinga voru jákvæð um 181 m.kr. samanborið við jákvæð áhrif upp á 150 m.kr. á sama tímabili 2016.

Heildarhagnaður fyrsta ársfjórðungs nam 1.933 m.kr. samanborið við hagnað upp á 1.193 milljónir á sama tímabili 2016. Eiginfjárhlutfall 30. júní 2017 er mjög hátt eða 70,7% en var í árslok 2016 66,7%.

Frekari upplýsingar veitir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf. í síma  855 9301.