HS Orka hf. birtir árshlutareikning fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2017Stjórn HS Orku hf. samþykkti á fundi sínum í dag árshlutareikning fyrirtækisins fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2017. Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, IFRS og er í íslenskum krónum. Árshlutareikninginn má finna hér.

Helstu atriði árshlutareikningsins eru þessi:

Hagnaður tímabilsins nam 3.179 milljónum en á sama tímabili 2016 var afgangur af rekstri 2.714 milljónir. Rekstartekjur námu 5.442  milljónum (2016: 5.119 milljónir). Helsta skýring á hækkun rekstrartekna eru auknar tekjur af smásölumarkaði á rafmagni og auknar  tekjur af sölu til álframleiðslu sem rekja má til hækkunar álverðs. Styrking krónunnar hefur að vísu unnið á móti þeirri hækkun. Þá er nokkuð minni sala á heitu vatni aðallega vegna hlýinda á tímabilinu. Framleiðslukostnaður er hærri en á sama tímabili 2016 fyrst og fremst vegna aukinna orkukaupa og aukins viðhaldskostnaðar við gufulagnir á Reykjanesi.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir á tímabilinu um 2.812 m.kr. en voru jákvæðir um 2.135 m.kr. á sama tímabili 2016. Hækkun á virði afleiða (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) er meginorsök breytingarinnar, en þeir voru jákvæðir um 2.864 m.kr. á tímabilinu, en voru jákvæðir um 1.653 m.kr. 2016. Áhrif gengisbreytinga voru jákvæð um 53 m.kr. samanborið við jákvæð áhrif upp á 597 m.kr. á sama tímabili 2016.

Á þriðja ársfjórðungi skrifuðu Arion banki og HS Orka undir samning sem snýr að heildarfjármögnun HS Orku. Um er að ræða lánsfjársamning sem meðal annars mun nýtast til uppbyggingar Brúarvirkjunar í Biskupstungum sem er allt að 9,9 MW rennslisvirkjun. Auk þess mun fjármögnunin nýtast til frekari þróunar verkefna sem tengjast Reykjanesvirkjun og uppgreiðslu eldri lána félagsins.

Heildarhagnaður tímabilsin nam 3.206 m.kr. samanborið við hagnað upp á 2.501 milljónir á sama tímabili 2016..

Eiginfjárhlutfall 30. september 2017 er áfram mjög hátt eða 71,7% en var í árslok 2016 66,7%.

Frekari upplýsingar veitir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf. í síma 520 9300 / 855 9301.