Breytingar á eigendahópi HS Orku


Innergex Renewable Energy Inc. tilkynnti í morgun að félagið hafi gengið frá samningi um sölu á öllum hlutum í félagi sínu, Magma Energy Sweden A.B., sem er eigandi 53,9% hlutar í HS Orku hf. Kaupverðið er sagt 304,8 milljónir bandaríkjadollara.

Kaupandinn er stór innviðafjárfestingarsjóður Macquarie Infrastructure and Real Assets (MIRA). Kaupin eru háð tilskyldum skilyrðum og meðferð forkaupsréttar á hlutum í Magma Energy Sweden A.B.

„Í nýliðnu söluferli endurspeglaðist mikill áhugi fjárfesta á HS Orku, sem við teljum jákvæðan vitnisburð um þróun félagsins og það góða starf sem hæft starfsfólk okkar vinnur“ segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku hf.